149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er alveg rétt að það er ekki nýtt að Íslendingar hafi lagt áherslu á mannréttindamál, sérstaklega jafnréttismál, í sinni utanríkisstefnu. En ég held að það hafi sjaldan verið jafn áberandi og nú, sérstaklega vegna þess hvaða stöðu við höfum tekið í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Eitt af því sem liggur til grundvallar þegar kemur að mannréttindamálum er svo sannarlega jafnrétti kynjanna. Án þess að lengja svarið við spurningunum frá hv. þingmanni þá höfum við nú þegar lýst yfir skoðun okkar á því sem hv. þingmaður vísar til. Við gerðum það í samvinnu við Norðurlöndin og lýstum yfir vonbrigðum okkar með hvernig þessi ályktun lítur út, í rauninni af þeim ástæðum sem hv. þingmaður vísaði til. Það er í samræmi við þær áherslur sem við höfum haft fram til þessa og er sjálfsagt að vísa til þeirrar ræðu þar sem við tókum undir þau sjónarmið sem öll Norðurlöndin hafa hvað þetta varðar.