149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra svarið og fagna því um leið. Innihaldið er mikilvægt, ég vil bara að það verði algerlega skýrt af okkar hálfu að þetta sé okkar afstaða. Það var hneisa hvernig Bandaríkin nálguðust þessa ályktun, að þau skuli hafa dembt sér í faðm Bahrain, Rússlands og Kína þegar kemur að réttindamálum allra kynja og ekki síður að þau skuli hafa farið með afgerandi hætti gegn því að nauðgun sé beitt kerfisbundið í stríði.

Mig langar að spyrja, ég er samt ekki viss um að ég komi því að en það tengist því hvernig Ísland vill vernda líffræðilegan fjölbreytileika hafsins: Formlegar samningaviðræður eru í gangi varðandi gerð nýs framkvæmdasamnings undir hafréttarsamningnum. Þar er starfshópur að verki hjá utanríkis-, atvinnuvega- og umhverfisráðuneytinu. Það fást engar upplýsingar um starfsemi hópsins, hver stefnan sé. Auðvitað eru miklir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga að vernda okkur gegn súrnun sjávar og mengun í hafinu, en engar upplýsingar fást um það hver okkar stefna er, hvernig verið er að vinna að þessu. Auðvitað viljum við vernda líffræðilegan fjölbreytileika hafsins en hvernig (Forseti hringir.) ætlar Ísland að beita sér í því? Það fást engar upplýsingar. Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra myndi svara þessu skýrt (Forseti hringir.) eins og hann svaraði fyrri fyrirspurninni.