149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að stutta svarið við þessari spurningu sé að við þurfum að vinna heimavinnuna okkar. Það þýðir ekkert að sitja alltaf og láta allt koma sér rosalega mikið á óvart. Það lá fyrir á sínum tíma, ég held það hafi verið árið 2005, að menn sóttu sérstaklega í það að reyna að selja hráan fisk. Menn vissu á þeim tíma, eins og kemur fram, hvað það mundi þýða á einhverjum tímapunkti. Þetta er búið að vera að malla í áratug, rúmlega það.

Mér hefur fundist að þeir sem á undan hafa gengið hefðu getað gengið harðar fram í því að reyna að búa okkur undir það. Því ég held að við höfum mjög margt fram að færa, með málefnalegum rökum, þegar kemur að heilnæmi íslenskra landbúnaðarafurða. En ef við veifum því ekki og gerum ekkert í því veit enginn af því.

Ég er mjög ánægður með þá áherslu sem ríkisstjórnin hefur þegar kemur að matvælastefnu Íslands, þó fyrr hefði verið. Heilnæmi dýraafurða og matvæla byrjar ekki og endar með frystiskyldu. Það er langur vegur frá. Ég hef sjálfur áhyggjur af sýklalyfjanotkun í allra handa matvælaframleiðslu og reyni að sneiða hjá þeim vörum sem ég tel líklegt að innihaldi eitthvað slíkt. Það er ástæðan fyrir því að á Íslandi kaupi ég íslenskt. Ég get náttúrlega ekki gert það í öðrum löndum nema í mjög litlum mæli, og er svo sem gangandi dæmi þess að það er ekki bráðdrepandi að borða erlent kjöt eða erlent grænmeti, ég hef gert mikið af því.

En við verðum að vinna heimavinnuna okkar. Það er ákveðinn rammi í þessu og við þurfum svo sannarlega að verja hagsmuni okkar þarna eins og annars staðar. En það mun enginn gera það fyrir okkur.

Það er þess vegna sem ég lagði á það áherslu og gerði að einu af mínum fyrstu verkum að efla hagsmunagæslu þegar kemur að EES. Því ef enginn er á vettvangi til að veifa flagginu og við vinnum ekki vinnuna okkar sjálf mun enginn gera það fyrir okkur.