149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu og margar spurningar. Ég ætla að reyna að svara því helsta sem hér kom fram.

Mér er bara gleði og ánægja að hrósa embættismönnum sem standa sig vel. En ég verð aðeins að stríða hv. þingmanni. Hann talaði um að ég setti fram að ég „gerði hitt og þetta“, en á sama tíma benti hv. þingmaður — réttilega — á að í hans tíð sem utanríkisráðherra hefði hann skipað nokkra sendiherra sem gert hafi að verkum að kynjahlutföllin jöfnuðust. Það er nú bara þannig að ráðherrar bera ábyrgð á sínum málaflokki og stefnan tekur mið af því sem þeir leggja upp. En það þarf ekki að taka það sérstaklega fram að auðvitað gerir enginn neitt einn og allra síst ráðherra. Ég er lánsamur að hafa mjög gott starfsfólk í utanríkisþjónustunni og á Íslandsstofu til að vinna með mér.

Hv. þingmaður vísaði til Japans. Ég hef frétt að færa sem hefur ekki komið fram áður. Eftir mjög mikla eftirgrennslan og mikla vinnu erum við komin á þann stað að við erum með fyrsta fundinn 6. júní þar sem við ræðum viðskiptasamráð Íslands og Japans. Vonandi mun hann leiða til fríverslunarsamnings. Það er auðvitað mjög gleðilegt að við séum komin á þann stað.

Ég ber sömuleiðis von í brjósti um vinnu varðandi Kína. Við náðum að klára það að opna fyrir útflutning á íslensku lambakjöti en þá er eftir fiskimjöl, lýsi og eldisfiskur. Ég vonast til þess að við fáum einhverjar fréttir um það fyrr en seinna.

Ég vissi ekki um þessar fréttir sem hv. þingmaður vísaði hér til varðandi ráðuneytisstjóra.

Varðandi málamiðlanirnar sem hv. þingmaður vísaði til er stutta svarið að það er allt saman í fullum gangi og engin breyting hvað það góða verkefni varðar.

Síðan ætla ég að reyna að klára hitt sem hv. þingmaður spurði um í (Forseti hringir.) seinna andsvarinu.