149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er rétt að ég minntist á það sem gert var í ráðuneytinu 2013–2016, en orðið „ég“ kom ekkert fyrir í því.

Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra innilega til hamingju með það sem hann var að segja okkur hér, að fyrsti fundur viðskiptasamráðs við Japan sé framundan. Það eru góð tíðindi. Vonandi mun það leiða til þess að út úr því komi fríverslunarsamningur eða einhvers konar viðskiptasamningur við það mikilvæga land í okkar samskiptum og viðskiptum. Það er í rauninni líka bara mjög merkilegt ef það tekst, því eins og ég held að ráðherra hafi minnst á í sínu sinni ræðu eru ekki mörg ríki sem Japan hefur gert samninga við, alla vega innan EFTA-ríkjanna er það bara Sviss. Trúlega eru samningarnir eitthvað fleiri en mér er kunnugt um eða er með í kollinum. En þetta er samt góður áfangi og takk fyrir það, hæstv. ráðherra, að upplýsa um það.

Við munum vonandi fá fleiri fréttir af þessu, þegar eitthvað gerist. Við þurfum ekkert að vera að pína ráðherrann til að segja eitthvað strax þar sem fundurinn hefur ekki átt sér stað. En það er mikilvægt að þetta gangi vel.

Mig langar að inna ráðherrann, af því að hann kemur hér upp aftur, aðeins út í þetta varðandi leitar- og björgunarmiðstöðina, hvort hún hafi verið sett á ís eða hvort hún sé enn þá einhvers staðar á borðum. Hugmyndin var að sjálfsögðu að þetta yrði að meginuppistöðu til í Keflavík og í kringum það svæði sem mundi þá styrkja enn þá meira það svæði allt saman, en yrði jafnframt með einhvers konar viðveru norðanlands einnig.

Frú forseti. Ég man ekki hvaða fleiri spurninga ég spurði ráðherrann.