149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er stór og mikil skýrsla og drepið á mjög mörgu og ræðutíminn ekki ótakmarkaður, en ég ætla að fara yfir það sem mér finnst kannski mestu máli skipta. Hæstv. utanríkisráðherra notaði vænan hluta af inngangsorðunum í að hrósa sjálfum sér og ráðuneytinu fyrir starf sitt og út af fyrir sig er ekkert við það að athuga standi fólk undir því — og sumt hefur ráðherra líka gert býsna vel.

Undir hans stjórn hefur Ísland haldið mannréttindum og jafnréttismálum ágætlega á lofti og nýtt stöðu landsins til að gagnrýna skort á mannréttindum, t.d. í Sádi-Arabíu, svo að eftir hefur verið tekið. Það er full ástæða til að hrósa fyrir það. Skýrslan er auk þess ágætlega upp sett og greinargóð og ágætisyfirlit yfir málaflokkinn í heild sinni. Ágætlega hefur verið haldið á stöðu okkar gagnvart Bretlandi nú þegar það er á leið úr Evrópusambandinu en ráðherra á enn eftir að sannfæra mig um sóknarfærin fyrir Ísland í þeirri harmsögu allri. Það er kannski önnur saga og hann hefur æ sjaldnar minnst á það upp á síðkastið, finnst mér.

Það er líka gott að sjá hversu afdráttarlaust er hamrað á því hve mikilvægur EES-samningurinn er fyrir landið. Ekki síst þegar manni virðast margar raddir einskis láta ófreistað að grafa undan honum þó að í hálfkveðnum vísum sé á stundum. Það er líka ánægjulegt að sjá því slegið föstu að mikil fjölþjóðleg samvinna ríkja sé lykillinn að farsælli þróun hér á landi og annars staðar í heiminum. Um það atriði er ég hjartanlega sammála ráðherra og líka því að slík samvinna sé grundvöllur þess að tryggja fullveldi landsins. Ég hefði viljað ganga lengra á ýmsum sviðum, m.a. í Evrópusamvinnu, til þess að komast beint að undirbúningi mála og ákvörðunartöku er varðar það samstarf og verja þannig fullveldi okkar enn betur en við höfum tök á núna.

Það er líka hægur vandi og auðvelt og nauðsynlegt að gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir það sem ríkisstjórnin ætlar ekki að gera og líka fyrir, að því er mér finnst, skort á metnaði. Á bls. 9 í skýrslunni er millifyrirsögnin: Í forystu frændþjóða.

Vissulega er hæstv. ráðherra að vísa til þess að á þessu ári er Ísland formennskuríki í norrænu ráðherranefndinni, þ.e. að við berum fyrirliðabandið á þessum vettvangi næstu leiktíð. Hann er hins vegar alls ekki að bera saman framlag einstakra landa inni á vellinum og nú þarf fyrirliðinn ekkert endilega að vera sá sem skarar fram úr þar inni. Hann þarf þá að búa yfir eiginleikum sem sameina og hvetja lið að sama marki. Fyrirsögnin fær mann aðeins til að velta því fyrir sér hvernig við stöndum í samanburði við hin Norðurlöndin í ýmsum þáttum er varða utanríkismál. Hér er ég ekki síst að vísa í þróunarsamvinnu. Sannleikurinn er sá að þar erum við slóðarnir í hópnum, dragbítur á vellinum. Ég átti þess kost að fara ásamt hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, formanni utanríkismálanefndar, til Malaví í janúar eða febrúar sl. og það var býsna merkileg upplifun, að koma sem gestur í eitt fátækasta land veraldar sem auk þess er snautt af náttúruauðlindum. Tilfinningarnar sveifluðust milli gleði og sorgar vegna þess að fólkið var þrátt fyrir allt brosmilt, fallegt og litríkt mitt í allri ógæfunni. Þessi ferð sannaði þó fyrir mér hve lítil þjóð eins og Ísland getur gert ótrúlega hluti og látið gott af sér leiða til að gera heiminn betri. Um leið sannfærðist ég líka um að við eigum að gera mikið betur og við getum gert betur. Við getum ekki sætt okkur við að vera minna en hálfdrættingar á við frændþjóðir okkar þegar kemur að þróunarsamvinnu. Ég vil þó hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa nú í fyrsta skipti veitt fasta upphæð til alþjóðlegu hjálparstofnunarinnar GAVI sem vinnur að bólusetningu á börnum. Það framlag mun gefa tugþúsundum barna von um betra líf, jafnvel líf.

Fyrir utan það að allt of litlu er varið til þróunarsamvinnu og markið engan veginn nógu hátt þá gengur heldur ekki að um þriðjungur þess sem er eyrnamerkt til hennar fari í innanlandsaðstoð við hælisleitendur og flóttamenn. Sú aðstoð er gríðarlega mikilvæg en á að koma úr öðrum sjóðum. Þess vegna er það vissulega gott að Ísland hyggist nú lúta viðmiðunarreglum DAC um þessi efni frá og með 2019, held ég. Við þurfum að leggjast á árar, öll hér, og sjá til þess að veita fjármuni í það ef niðurstaðan verður sú að þess þarf. En við verðum fyrst og fremst að hætta að líta á þátttöku okkar í þessum miklu fólksflutningum, sem stafa af neyð, sem fórn. Auðvitað á gott hjartalag að vera drifkraftur til slíks en við verðum líka að muna að við höfum alþjóðlegar skuldbindingar auk þess sem það er mjög stórt hagsmunamál mannkynsins að allir búi við öryggi og ásættanlegan aðbúnað. Þá eru ótalin þau gríðarlega jákvæðu áhrif sem innflytjendur hafa haft og munu hafa á íslenska menningu, samfélag almennt og ekki síst efnahag.

Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra er fjallað um þær alþjóðasamþykktir sem Ísland er aðili að er varða flóttafólk og fólksflutninga og þar er einmitt lögð áhersla á sameiginlega ábyrgð og gildandi mannréttindasamninga. Ég veit að útlendingalögin eru ekki beint á könnu hæstv. ráðherra en hann tilheyrir þessari ríkisstjórn. Ég get ekki stillt mig um að gagnrýna það frumvarp sem hér er komið fram, sem er mikil afturför. Ég minni á að við þingslit 2017 undirrituðu formenn flestra ef ekki allra flokka yfirlýsingu þess efnis að á næsta þingi á eftir yrði lögð áhersla á breytingu á útlendingalögum þar sem réttindi barna á flótta og fólks í viðkvæmri stöðu yrðu sérstaklega höfð að leiðarljósi. Því miður sýna nýleg dæmi að ekkert hefur verið gert með það. Þvert á móti þá miðar okkur svolítið í öfuga átt.

Frú forseti. Í skýrslunni er einnig talað um að Ísland hafi getið sér gott orð fyrir framgöngu í mannréttindamálum og að málflutningur Íslands á alþjóðavettvangi hafi ekki síst tekið mið af áherslum á kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks. Ég held að það sé að mörgu leyti rétt og mér finnst ráðherra hafa staðið sig vel þegar ég hef heyrt til hans og séð haft eftir honum. Ég hlýt þess vegna líka að hvetja hæstv. ráðherra til að tala gegn ríkisstjórnarfrumvarpi um hatursorðræðu sem þrengir að réttindum hinsegin fólks og annarra minnihlutahópa í samfélaginu. Ég held að það gæti skaðað áhrif og orðspor Íslands erlendis.

Í skýrslunni fer hæstv. ráðherra víða yfir sviðið í varnar- og öryggismálum og þar er ég honum reyndar sammála í grundvallaratriðum. Þó vil ég hvetja ráðherra til að leggja enn meiri áherslu á mýkri nálgun, á lýðræðið, á mannréttindi, samvinnu og jöfnuð, frekar en beinharða hagsmuni og hernaðarsamstarf. Ég held að þessi gildi verði á endanum alltaf farsælli leið til að stuðla að öryggi og heimsfriði en vopn verða nokkurn tímann.

Talandi um samvinnu og samstarf þá horfum við líka upp á gjörbreytta heimsmynd, gjörbreytta stöðu heimsmála, nýja drifkrafta, nýjan valdastrúktúr. Í stað hefðbundinnar skiptingar kalda stríðsins milli austurs og vesturs, alræðis og lýðræðis, er staðan er miklu flóknari í dag og kraftarnir allir aðrir. Stutt er í að Kína verði leiðandi heimsveldi. Bandaríkin eru á torræðri leið, vonandi tímabundið. Rússar óútreiknanlegir, Indland og fleiri ríki vaxandi og eitt af gömlu stórveldunum í Evrópu að draga sig úr ESB. Síðast en ekki síst er vaxandi fylgi við öfgastefnur úti um allan heim, líka hér í Evrópu sem gera út á þjóðernishyggju og einangrunarhyggju og er það mikið áhyggjuefni. Í slíkum veruleika held ég að það sé miklu mikilvægara en nokkurn tímann áður að við styrkjum samstarf okkar við Evrópu. Það eru því ákveðin vonbrigði, þó að það komi ekki beinlínis á óvart, að ríkisstjórnin skoði ekki leiðir í því sambandi frekar.

Við ramman reip er að draga þegar kemur að sundrungaröflunum, og þar held ég að við hæstv. ráðherra séum algjörlega sammála. Þessi öfl ala ekki eingöngu á fordómum í garð útlendinga heldur sjá jafnvel ástæðu til þess að sá efasemdum um mikilvægi aðgerða í loftslagsmálum, svo að dæmi séu nefnd. Það er erfitt að átta sig á tilganginum með því að grafa undan staðreyndum og hafna vísindum nema hann sé sá að þjóna eigin hagsmunum. Það getur gagnast einstökum ríkjum og stjórnmálasamtökum tímabundið að grafa undan slíku samstarfi og samhjálp en það mun aldrei þjóna langtímahagsmunum neins lands og aldrei mannkyninu. Mannkynið stendur nefnilega frammi fyrir þremur risaáskorunum, ófriði, fátækt og loftslagsógn, og við þurfum einfaldlega að vera tilbúin til meira fjölþjóðlegs samstarfs eigum við að ráðast gegn þeim.

Mín skoðun er sú að okkar skýrasti valkostur sé þéttara Evrópusamband. ESB hefur verið í fararbroddi þegar kemur að baráttunni fyrir jafnrétti, auknum mannréttindum og loftslagsmálum. Það hefur auk þess lagt höfuðáherslu á baráttu gegn hlýnun jarðar og áætlar að 25% af fjármagni þess verði varið í loftslagsmál til ársins 2027. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál reiknar með að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5° — og nú stefnum við í 3°, skilst mér. Hér á Íslandi, þrátt fyrir vilja og ágætisspretti, göngum við einfaldlega of langt og við gerum einungis ráð fyrir að 0,05% af landsframleiðslu fari í aðgerðir.

Það getur vel verið að tímabundið komi Ísland ekki jafn illa út vegna hlýnunar andrúmsloftsins. Ég held að við ættum kannski að líta á vegferð mannsins sem sameiginlega siglingu en vissulega búa löndin í mjög misdýrum rýmum og upplifa siglinguna á mismunandi hátt. Sumir búa í lúxusvistarverum og mæta í kvöldverð hjá skipstjóranum en aðrir hírast neðan þilja við auman kost. Slæmu fréttirnar, frú forseti, eru auðvitað þær að fari skipið niður felast engin forréttindi í því að drukkna á fyrsta farrými. Ísland er ríkt land. Hér er menntunarstig hátt. Mannréttindi eru góð, jafnrétti og jöfnuður tiltölulega mikill í alþjóðlegu samhengi þó að við getum gert betur innanlands. Ég held því að hin eina raunverulega útflutningsvara Íslendinga, þegar kemur að utanríkismálum, séu þau gildi. Ég vil hvetja ráðherra til að halda áfram að tala fyrir þeim og minna á þau hvar sem hann kemur og þora einmitt, þrátt fyrir að við séum lítil, að tala hreint út eins og gert var í mannréttindaráðinu nýlega. Jafnvel þar getum við gert betur og við skulum einsetja okkur að gera það saman.