149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu og margt kom fram þar sem rétt væri að minnast á. Auðvitað skammaði hann mig fyrir það að hrósa sjálfum mér, það virðist vera línan í ræðum kvöldsins. En hv. þingmaður þekkir mig frá gamalli tíð þannig að það verður ekki auðveldlega skafið af mér á miðjum aldri. En að öllu gamni slepptu var margt gott sem hér kom fram og ég er sammála hv. þingmanni í velflestu. Bara svo að það sé sagt höfum við alltaf farið eftir viðmiðunarreglum DAC en nú eru þær að breytast og við munum að sjálfsögðu miða okkur við það.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hann talar um gildi. Við erum dæmi um það með því að hafa þau gildi sem okkur finnast sjálfsögð og það er bara gott. Það vill enginn fara til baka, alla vega ekki í orði hvað það varðar, því að við höfum ekki alltaf haft þau. Við höfum ekki alltaf haft lýðræði eða mannréttindi eða réttarríki eins og við höfum nú og það er útflutningsvara. Það sama á við um mikilvægi alþjóðasamstarfs. Ég tel að við séum á ákveðnum tímapunkti, það er mjög mikilvægt fyrir okkur að við útskýrum hvað alþjóðasamstarf skiptir miklu máli, hverju það skilar okkur beint og hve mikilvægt það er efnahagslega og af mörgum öðrum ástæðum. Ég held að það skaði verulega ef menn setja samasemmerki milli þess að menn séu fylgjandi alþjóðasamvinnu og vilji ganga í Evrópusambandið. Hv. þingmaður vísaði hér til gildis eins og lýðræðis. Fólki innan Evrópusambandsins og sannarlega þeim sem standa fyrir utan það og horfa inn finnst hljómurinn holur þegar kemur að lýðræði í Evrópusambandinu og það er málefnaleg gagnrýni, það er eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega.

Það er mín skoðun að það samræmist alls ekki hagsmunum okkar að ganga í Evrópusambandið. Við erum samt sammála um að nauðsynlegt sé að leggja áherslu á alþjóðlegt samstarf. Við munum fá mikla andstöðu þar sem menn geta málefnalega bent á að ekki sé algert samasemmerki þarna á milli.