149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég talaði um að hæstv. ráðherra hefði hrósað sjálfum sér en ég sagði líka að það væri í lagi ef inneign væri fyrir því og staðfesti það. Mér finnst hann hafa staðið sig ágætlega á mörgum sviðum. Það skiptir máli að velta fyrir sér gildum, þau þurfa að verða sífellt ríkari þáttur í stefnu okkar. Það skiptir ekki síst máli þegar við veljum okkur bandamenn. Ég held að það skipti rosalega miklu máli að við veljum okkur bandamenn sem tala fyrir þessum gildum og sýna jafnvel í verki það sem við náum einungis að gera í orði.

Ég hrósaði hæstv. ráðherra fyrir að nefna að það væri grundvallaratriði til að tryggja fullveldið að sinna fjölþjóðlegu samstarfi og ég fagnaði áherslu sem hann lagði á slíkt samstarf. Ég hef ekki sagt að það væri neitt samasemmerki á milli þess að sinna fjölþjóðlegu samstarfi og að ganga í ESB. Ég sagði hins vegar að ég teldi að þar gætum við kannski náð árangri sem við náum varla með núverandi fyrirkomulagi og þá þyrftum við að kalla hæstv. fjármálaráðherra hingað vegna þess að þá berast böndin mjög fljótt að gjaldmiðlinum.

Hvernig sem við veljum að vinna með Evrópu þá held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við horfum ekki bara á beina peningalega og viðskiptalega hagsmuni heldur á hluti eins og mannréttindi, jafnrétti, viðhorf til dauðarefsinga, viðhorf til lífsins og alls konar hluta.