149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, eins og ég sagði í ræðunni finnst mér sem ágætlega hafi verið haldið á þessum samningum en mér finnst varhugavert að tala um mikil sóknarfæri. Sérstaklega finnst mér það kannski slæmt þegar atburðirnir sem til þeirra sóknarfæra kunna að leiða eru á þann veg að mjög mikilvæg samstaða er að brotna upp sem ég sé ekki fyrir endann á. Ég vona að þetta mál leysist á farsælli hátt en verstu spár segja.

Við erum í svo hverfulum og kvikum heimi þar sem öfgaraddir og sundrungaröfl og einangrunarsinnar vaða á súðum. Ég held að um sinn þurfum við hæstv. ráðherra fyrst og fremst að vera samherjar til að vernda þá hagsmuni sem við höfum, vernda EES-samninginn, og ég held að það getum við alveg gert.

Ég gleðst líka yfir hækkuðum framlögum til þróunarsamvinnu. Ég átta mig á því að útgjaldaliðurinn hefur hækkað meira en margt vegna þess að hann tengist líka góðæri sem hér hefur verið á síðustu árum og aukinni landsframleiðslu. Þrátt fyrir það eigum við að sýna meiri metnað. Við horfum upp á að næsta land á Norðurlöndunum fyrir ofan okkur er Finnland, held ég, með 0,79%, og svo eru Norðmenn og Svíar langt þar fyrir ofan. Við hljótum því að geta gert betur.

Ég minni á, og ég vona ég fari rétt með, að ég held að það hafi verið 1976 sem Ísland þáði síðast einhvers konar þróunarstyrki frá Sameinuðu þjóðunum. Það er býsna stutt síðan við vorum í slæmri stöðu og við skulum alltaf muna það.