149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún kom víða við. Það er slegið í og úr ræðu hv. þingmanns varðandi það hversu mikið við erum að gera í utanríkisþjónustu okkar þegar kemur að þeim gildum sem við erum sammála um í þessum sal. Glöggt er gests augað og ég held að það væri hollt fyrir hv. þingmenn að hlusta á alþjóðleg mannúðarsamtök sem berjast fyrir mannréttindum tala um hvað við erum að gera í mannréttindaráðinu. Ég hvet hv. utanríkismálanefnd til að fara og hitta þá aðila, t.d. í Genf. Við þurfum ekki að bera kvíðboga í samanburði við neina aðra þjóð, langt, langt frá því, og þá ekki bara hvað varðar framtak okkar, sem var ekki lítið. Það tók ekki stuttan tíma og það var ekki lítið að gera þegar kom að Sádi-Arabíu. (Gripið fram í.) Þó svo að aðrir hafi gert eitthvað prýðilegt líka er engin ástæða til að tala niður það sem við gerum. Við sýnum að lítil þjóð skiptir máli og erum svo sannarlega hnarreist, göngum bein í baki og berjumst fyrir þeim gildum sem við erum sammála um. Ef allir gengju fram eins og Íslendingar væri mannréttindaráðið mun öflugri vettvangur en það er í dag.

Það vill svo til, af því að menn tala um vini okkar Svía, að þegar kemur að þeim mælikvörðum sem við notum erum við ofar en þeir þegar kemur að jafnréttismálum. Reyndar er það þannig að menn líta til Norðurlandanna en sérstaklega til Íslands, vegna þess að við höfum verið á toppnum þegar kemur að jafnréttismálum og hefur ekki borið neinn skugga þar á.

Mér finnst, virðulegi forseti, að við ættum að geta verið stolt af því. Ég held að samstaða sé í þessum sal (Forseti hringir.) hvað framgöngu okkar varðar. Við getum borið okkur saman við alla þegar kemur að þeim málum.