149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:51]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið en verð að játa að ég átta mig ekki alveg á því hvað hann var að fara. Ég var að hrósa utanríkisráðherra og starfsfólki hans í mannréttindaráði fyrir vasklega og afar góða framgöngu þegar kemur að því að fordæma mannréttindabrot Sádi-Araba. Ég veit ekki betur en að það hafi haft góð áhrif á alþjóðlegum vettvangi. Eftir því sem ég best man er einmitt minnst á í skýrslu hæstv. ráðherra að það hafi til að mynda liðkað fyrir því að bæta réttindi ákveðins hóps kvenna í Sádi-Arabíu, sem er frábært og vel. Ég ítreka hrós mitt til hæstv. ráðherra.

Að sama skapi er ég líka undrandi yfir þeirri hjásetu sem við tókum ákvörðun um í atkvæðagreiðslu um málefni Palestínu. Það var það sem ég minntist á. Ég er fyllilega sammála því að þrátt fyrir smæð okkar getum við gert stóra og mikla hluti, eins og fordæming á mannréttindabrotum í Sádi-Arabíu ber vitni um og líka viðurkenning okkar Íslendinga á Palestínu sem sjálfstæðu og fullvalda ríki, sem var samþykkt í þessum sal og ég er ákaflega stolt yfir að við gerðum fyrst Vesturlanda.

Þegar kemur að jafnréttismálunum og Svíum og mælikvörðum sem snúast um jafnréttismál — og nú er tíminn að hlaupa frá mér og ég kem því kannski að í seinna andsvari, frú forseti — er rétt að segja frá því að þeir mælikvarðar sem notast er við þegar kemur að jafnréttismálunum hafa oft og tíðum verið gagnrýndir af samtökum er berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Þeir ákveðnu mælikvarðar mæla oft og tíðum ekki ofbeldi gagnvart konum, (Forseti hringir.) réttarvörslukerfinu, framgangi kynferðisafbrota inn í réttarvörslukerfinu o.s.frv. Það hefur vissulega borið á því að þrátt fyrir að við skorum hátt samkvæmt þeim mælikvörðum þá hafa mælikvarðarnir sjálfir ekki verið undanþegnir gagnrýni.