149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Aðeins út af Palestínumálinu — það er í fullu samræmi við utanríkisstefnu okkar. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur kallað eftir upplýsingum um það sem verður farið í gegnum í utanríkismálanefnd. Það er ekki nein breyting þar á. Ég næ ekki að fara í gegnum það í stuttu andsvari en það er sjálfsagt að ræða málið og fara vel yfir það.

Varðandi annað sem hv. þingmaður nefndi. Í fyrsta lagi höfum við alltaf farið eftir DAC-reglum. Nú er verið að breyta DAC-reglunum en það stendur til að halda áfram að fara eftir þeim. Það er hins vegar samspil á milli, ekki bara framlaga í utanríkisráðuneytinu heldur líka í dómsmálaráðuneytinu þegar kemur að DAC-reglunum. Þannig að þetta snýr að því að utanríkisráðuneytið sé að nýta einhverja peninga. Þeir málaflokkar heyra ekki undir okkur. Þetta spilar hins vegar saman.

Síðan um möguleikana þegar kemur að loftslagsbreytingum. Það verður að tala um hlutina eins og þeir eru. Þetta eru bæði ógnir og auðvitað líka tækifæri þegar siglingaleiðirnar opnast. Reyndar er það þannig að þó svo að þetta komi til af slæmum ástæðum þýðir það minni útblástur hjá skipum þegar þau sigla styttri leiðir en lengri. Þess vegna leggjum við m.a. áherslu á leit og björgun, af því að umferðin mun aukast alveg gríðarlega. Við höfum áhyggjur af því að líkurnar á umhverfisslysum aukist, en að sama skapi erum við komin í þjóðbraut hvað varðar þær siglingar. Það er ekki hægt að ræða þau mál öðruvísi en þau eru. Þarna eru bæði ógnir og tækifæri. Þetta kemur ekki til af góðu, eins og hv. þingmaður vísar til, og um það er ekki deilt en þetta er staðan. Þetta er það sem er að gerast og þarna þurfum við að vinna með öðrum þjóðum að því að ekki verði umhverfisslys á þeim slóðum eða slys á fólki sem hæglega getur orðið (Forseti hringir.) með aukinni umferð