149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:58]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góða umræðu um utanríkismál í dag og afar yfirgripsmikla og fróðlega skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Að mínu mati ræðum við utanríkismálin ekki nógu oft hér á Alþingi. Ég hef áhyggjur af því að takmörkuð umræða um utanríkismál hafi þau áhrif að almenningur sé e.t.v. ekki nægilega vel upplýstur um stefnu Íslands í utanríkismálum, þátttöku okkar í alþjóðasamvinnu af ýmsu tagi, ekki síst norrænni, sem og þátttöku í ýmiss konar alþjóðlegum stofnunum, samningum og bandalögum.

Það er t.d. alveg með ólíkindum að stór hluti landsmanna telur okkur ekki eiga aðild að hernaðarbandalagi samkvæmt skoðanakönnunum, en Ísland varð aðili að stofnsamningi NATO sem undirritaður var árið 1949. Það eru því nákvæmlega 70 ár síðan það var gert. Samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum er gott og fer vaxandi, en helsti samstarfsvettvangurinn er NORDEFCO. Þar sem Ísland er vopnlaust ríki tökum við þátt í borgaralegum hluta samstarfsins. Aukin áhersla er á netöryggi ríkja og er vaxandi samstarf á því sviði hjá norrænum ríkjum sem eiga í farsælu samstarfi við Eystrasaltsríkin sem og alþjóðastofnunum eins og Atlantshafsbandalaginu eða Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Sameinuðu þjóðunum.

Að mínu mati er netöryggi einn af þeim málaflokkum sem við sem þjóð eigum að leggja áherslu á og eigum að halda áfram að vera í mjög nánu sambandi við okkar helstu bandamenn. Við erum örþjóð og höfum því ekki getu til að halda utan um öflugar netvarnir ein og sér. Í samstarfi getum við svo sannarlega lagt okkar af mörkum í formi þekkingar og mannauðs og það eigum við auðvitað að gera eftir fremsta megni.

Hæstv. forseti. Starfsemi íslenskra sendiráða er einnig viðamikil en maður heyrir stundum nefnt í umræðunni að þau séu óþörf. Sumir segja að réttast væri að loka þeim öllum og funda með fjarfundabúnaði þegar nauðsyn krefur og nýta fjármagn ríkisins í aðra og þarfari hluti eins og heilbrigðisþjónustu og vegagerð. Pólitík snýst auðvitað að hluta til um það að ákvarða um forgangsröðun fjármuna. Ég tel þeim fjármunum vel varið sem nýttir eru í rekstur sendiráða þar sem þau gegna veigamiklu hlutverki í borgaraþjónustu, öflun viðskiptatengsla og ekki síst markaðssetningu á íslenskri menningu.

Á blaðsíðu 87–113 í skýrslu ráðherra er ágæt umfjöllun um starfsemi sendiskrifstofa. Í þeim kafla er einnig gott yfirlit um helstu verkefni og áherslur Íslands í fastanefndum okkar hjá NATO í Róm, New York og í Vín. Fulltrúar Íslands á þessum stöðum eru í fyrirsvari gagnvart nokkrum alþjóðlegum stofnunum á hverjum stað. Í Róm hefur fastanefndin t.d. fyrirsvar gagnvart matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og þróunarsjóði landbúnaðar.

Fastafulltrúi sækir alla reglulega fundi stofnananna og gætir sérstaklega að málefnum þróunarsamvinnu í heiminum og sérstökum hagsmunamálum Íslands. Á árinu 2018 var undirbúinn samstarfssamningur við matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, skammstafað FAO, þar sem Ísland styrkir aðgerðir gegn ólöglegum fiskveiðum, rusli í höfum og drauganetum sem skilin eru eftir á fiskislóð. Sá samningur var fullgerður í byrjun þessa árs og gildir í fjögur ár. Þar styður Ísland mikilvægar aðgerðir á þessum sviðum með beinum fjárframlögum og sérfræðiaðstoð.

Okkar framlag skiptir svo sannarlega máli í samstarfi þjóðanna. Við þurfum að vera í stöðugu og persónulegu sambandi við fólk um allan heim til að gæta hagsmuna Íslands því að þegar á reynir er það oft hið persónulega samband einstaklinga sem gerir það mögulegt að leysa flókna stöðu eða viðfangsefni hverju sinni. Samvinna í verki verður seint ofmetin.

Herra forseti. Áður en ég vík máli mínu að norrænu samstarfi verð ég að nefna hér tvennt sérstaklega sem verið hefur mér ofarlega í huga síðustu daga og vikur í tengslum við umræðu um þriðja orkupakkann. Það er samstarf okkar við Liechtenstein, Sviss og Noreg í gegnum EFTA sem og aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, en sá samningur var undirritaður árið 1994. Aðildarríki EFTA hafa gert fríverslunarsamning sín á milli, EFTA-sáttmálann, og gera jafnframt sameiginlega fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópusambandsins, ESB, með það að markmiði að tryggja fyrirtækjum frá EFTA-ríkjunum bestu viðskiptakjör hvar sem þau kjósa að eiga viðskipti.

EFTA hefur gert 29 fríverslunarsamninga við 40 ríki utan ESB og hafa 26 þeirra tekið gildi gagnvart Íslandi. EFTA skapar einnig samstarfsvettvang fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein gagnvart ESB á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, títtnefndan EES-samning, en fjórða EFTA-ríkið, Sviss, er ekki aðili að þeim samningi. Ég tel að samstarf okkar innan EFTA, sem og aðild okkar að EES, Evrópska efnahagssvæðinu, hafi skipt okkur verulega miklu máli og eigi stóran þátt í þeim lífsgæðum sem skapast hafa síðustu áratugi hér á landi.

Ég óttast hins vegar að margir hafi ekki hugmynd um hvað EES er, hvað EFTA er og síðast en ekki síst hvaða áhrif þátttaka okkar hefur haft á daglegt líf fólks hér um langa hríð vegna þessara samninga og þessa samstarfs. Fólk á fimmtugsaldri var t.d. varla farið að taka þátt í svokölluðu fullorðins lífi þegar EES-samningurinn var undirritaður árið 1994. Það fólk og yngra þekkir því illa hvaða breytingar sá samningur hefur haft í för með sér. Við tökum kannski aðgangi okkar að 500 milljón manna markaði sem sjálfsögðum hlut, sem það er svo sannarlega ekki. Viljum við hverfa til baka? Ekki ég. Sumir eru haldnir sterkri fortíðarþrá og sjá það sem áður var í rósrauðum bjarma. Rétt eins og torfbæirnir, sem eru í hugum sumra tákngervingar rómantíkurinnar á meðan raunveruleikinn var allt annar og átti ekkert skylt við rómantík. Kuldi, saggi, vond lykt, myrkur og reykur. Nei, við viljum ekki fara þangað. EES-samningurinn er okkur afar mikilvægur og við megum ekki ógna því góða samstarfi á nokkurn hátt.

Ég var, eins og fleiri, á árlegri ráðstefnu í Háskóla Íslands fyrir skömmu um alþjóðamál. Ráðstefnan var afar fróðleg, bæði erindin sem og pallborðsumræðurnar á eftir. Í umræðum um Brexit kom m.a. fram að algengasta leitarorðið á Google-leitarvélinni í Bretlandi daginn eftir kosningarnar í Brexit var: Hvað er Evrópusambandið? Hvers vegna eru Bretar í Evrópusambandinu?

Við sjáum nú hvert rangar upplýsingar hafa leitt Breta. Já, í miklar ógöngur sem ekki sér fyrir endann á.

Herra forseti. Það er þess virði að velta þessu aðeins fyrir sér. Rangar upplýsingar geta haft mjög skaðleg áhrif og í raun grafið undan lýðræðinu. Við þurfum að vera vakandi fyrir slíkum ógnum.

Það er auðvelt að gleyma sér í skýrslu ráðherra enda af miklu að taka. En þar sem ég gegni embætti formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs ber mér skylda til að tala um það góða starf sem fram fer á þeim vettvangi. Norrænt samstarf er og hefur lengi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs sem stofnað var árið 1952. Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til norrænu ráðherranefndarinnar og ríkisstjórna Norðurlandanna.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda mjög reglulega og sendiskrifstofur Íslands eru í góðum samskiptum við norræna kollega heima og að heiman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem og annarra alþjóðastofnana. Þess má geta að Norðurlöndin starfrækja sendiráð sín á sameiginlegu svæði í Berlín. Það hefur gefist afar vel.

En hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland? Samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs skiptir Ísland afar miklu máli. Ísland er auðvitað smáríki og því veitir norrænt samstarf okkur ákveðna fótfestu á alþjóðavettvangi. Við erum samstiga öðrum Norðurlöndum í helstu áskorunum og álitamálum í hinu alþjóðlega umhverfi. Þannig tala Norðurlöndin oft einum rómi, t.d. þegar kemur að öryggismálum, umhverfis- og loftslagsmálum og jafnréttismálum. Norðurlandaþjóðirnar deila einnig sameiginlegri sýn á ákveðin grundvallargildi eins og mikilvægi mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins og um friðsamlega lausn deilumála. Á þessum sviðum eru Norðurlandaþjóðir í fararbroddi á heimsvísu og leggja áherslu á að deila þekkingu sinni til að efla samfélög í öðrum heimshlutum.

Hæstv. forseti. Pólitísk fótfesta, öflug utanríkisviðskipti og samstarf um menningu, menntun, vísindi og þróun eru kostir norræns samstarfs í hnotskurn og styrkurinn felst í því hversu ótrúlega margir taka þátt í samvinnunni á hverjum degi. Við erum án efa sterkari saman. Íslendingar hafa haft mörg stór hlutverk í norrænu samstarfi á þessu ári. Þar höfum við gegnt formennsku í norrænu ráðherranefndinni, formennsku í samstarfi norrænna utanríkisráðherra, sem kallast N5, og samstarfi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, NB8, ásamt því að taka sæti í stjórn Alþjóðabankans í Washington DC í fyrir hönd NB8-hópsins.

Málefni hafsins eru eitt af því sem Ísland leggur áherslu á í öllu norrænu milliríkjasamstarfi og í fyrirhugaðri formennsku í Norðurskautsráðinu.

Ég hef áhyggjur af því að ég hafi ekki tíma til að klára alla ræðuna þannig ætla að hlaupa yfir frekari umfjöllun um norræn málefni en snúa mér að þróunarsamvinnunni, sem ég hef einnig mikinn áhuga á.

Málefnum þróunarsamvinnu eru gerð ágæt skil í skýrslu ráðherra á blaðsíðu 70–83. Um það vil ég segja að við höfum gert vel á þeim vettvangi. Með þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð sýnum við í verki að við erum þjóð á meðal þjóða. Við höfum verið dugleg við að nýta sérþekkingu okkar á ýmsum sviðum í uppbyggingu innviða, til að mynda á sviði jarðhitanýtingar, landgræðslu, fiskveiða og ekki síst í jafnréttismálum. Dæmi um merkileg verkefni á sviði jarðhitanýtingar er svæðasamstarf 13 ríkja í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku, sem fjallað er um í skýrslunni, sem Ísland hefur leitt síðan 2013 í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn NDF. Verkefnið er tengt við viljayfirlýsingu Íslands og Alþjóðabankans um aukna jarðhitanýtingu á svæðinu. Því lauk formlega árið 2017. Framkvæmd nokkurra verkþátta hefur dregist en mun verða lokið á þessu ári. Þá stendur til að skoða ítarlega hvernig veita má áframhaldandi stuðning við jarðhitaþróun í Austur-Afríku og væntanlegar tillögur um úttekt á jarðhitaverkefni Íslands og mun NDF nýtast í þeirri vinnu.

Í skýrslu ráðherra er einnig komið inn á svæðasamstarf sem Ísland hefur komið að á sviði fiskimála í Vestur-Afríku. Skrifað var undir samstarfssamninga við Síerra Leóne og Líberíu fyrr á þessu ári um ný samstarfsverkefni sem styðja við heimsmarkmið nr. 14, líf í vatni, um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og verndun hafsins. Bæði löndin hafa umtalsverða möguleika á að byggja upp atvinnulíf og störf tengd fiskveiðum enda góð fiskimið undan ströndum þeirra. Verkefnin hafa verið undirbúin í náinni samvinnu við Alþjóðabankann í fiskimálum og stjórnvöld í viðkomandi löndum.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er lykilsamstarfsaðili verkefnisins og mun skólinn bjóða upp á sérsniðna þjálfun við að stýra markmiðum verkefnisins. Á árinu 2018 voru haldin námskeið í notkun og greiningu gagna og skipaeftirlitskerfum fyrir lykilstarfsmenn sjávarútvegsráðuneyta frá þessum löndum auk Gana.

Þá voru frumgerðir nýrra og endurbættra reykofna fyrir fisk hannaðar og smíðaðar í samstarfi við Matís og innlendar verkmenntastofnanir. Nýju ofnarnir koma einkum konum í fiskverkun til góða og draga úr eldiviðarnotkun og heilsuspillandi mengun. Mikilvægur hluti verkefnisins felst í því að bæta vatns- og hreinlætismál í fiskiþorpum ásamt því að berjast gegn plastmengun og leggja áherslu á endurvinnslu. Skrifað var undir samning við UNICEF, sem verður samstarfsaðili Íslands í löndunum og leiðir innleiðingu þessara verkefnaþátta í samstarfi við þarlend stjórnvöld. Með þessu verkefni stígur Ísland fyrstu skrefin í nýju samstarfi við þessi tvö lönd sem bæði glíma við gríðarmikla fátækt og hafa veikburða innviði.

Herra forseti. Þetta eru verkefni sem við getum verið stolt af. Umræða hefur verið töluverð um framlög Íslands til þróunarsamvinnu og sýnist sitt hverjum eins og gengur. Framlögin hafa verið hlutfallslega lág í samanburði við framlög nágrannaþjóða okkar en fara hækkandi. Fram kemur í skýrslunni að ríkisstjórnin hyggist auka framlög til þróunarsamvinnu á næstu árum og stefnir að því að þau verði 0,35% af vergum þjóðartekjum eftir fjögur ár.

Þess má geta að nú fer fram talsvert mikil vinna í ráðuneytinu varðandi endurskoðun á verklagsreglum sem þróunarsamvinnudeild ráðuneytisins fylgir varðandi reglur DAC. Fulltrúar frá DAC komu hér í mars á þessu ári og sat sú sem hér stendur þann fund, m.a. með þróunarsamvinnunefndinni þar sem verið var að útskýra ákveðna vinnu við samræmingu á tölfræði varðandi þessa verkþætti þannig að yfirsýn væri yfir öll útgjöld og aðildarríkin væru samanburðarhæf hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu. Hingað til höfum við verið að bera saman epli og appelsínur vegna þess að hlutirnir eru ekki reiknaðir eins út alls staðar. Það er mjög slæmt. En þessi vinna stendur yfir og í skýrslu ráðherra kemur fram að DAC taki hana út í ráðuneytinu með jafningjarýni árið 2020.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja að samvinna á öllum sviðum er alltaf til góðs, á norrænum vettvangi, á vettvangi þróunarsamvinnu og/eða á efnahagslegum vettvangi, ekki síst fyrir smáríki eins og okkur. Við megum aldrei gera lítið úr því að grundvöllur þess að við getum tekið þátt í samvinnu af þessu tagi er við erum fullvalda og sjálfstætt ríki. Það er miðinn okkar inn í þessa samvinnu sem hefur gefið okkur svo margt og mun vonandi halda áfram að gera það.