149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:14]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna og tek undir með öðrum hv. þingmönnum um að hún sé einkar góð. Skýrslan er aðgengileg og ítarleg og ljóst að lagður var talsverður metnaður í hana, aðallega í alþjóðastarf, samstarf og tækifæri Íslands út á við.

Ég vil einnig þakka fyrir það tækifæri sem við þingmenn höfum til að taka umræðu um utanríkismál í þessum sal. Það er ekki á hverjum degi, því miður, sér í lagi því að umræða eins og um þessa skýrslu er breiðari og dýpri en oft gerist. Við þurfum að reyna að ræða oftar um slík mál, enda ótækt að fara mjög djúpt í hvert einasta atriði í skýrslunni. Tilefni er til að taka oftar og afmarkaðri umræðu um utanríkismál.

Það er ljóst að þessi viðamikla skýrsla snertir á fjölda mála, allt frá skipulagi utanríkisþjónustunnar og borgaraþjónustunnar sem og alþjóðasamstarfi til ítarlegri umræðu og gagna um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu og hagsmuni Íslands þar. Fjallað er um menningarmál, öryggismál og þróunarsamvinnuna, sem allt væri tilefni í sérstaka umræðu.

Ég heyri að frekar góður samhljómur er um meginefni skýrslunnar í salnum. Enda er leiðarstefið að tryggja öryggi og varnir landsins, viðskiptahagsmuni og hafa í heiðri grundvallargildi mannréttinda, mannúðar og jafnréttis hvar sem við komum. Þrátt fyrir að mismunandi áherslur séu í einstökum málum, líkt og við þekkjum, sem dæmi um aðild að Evrópusambandinu og þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, er ekki tekist sérstaklega á um þá þætti í utanríkismálaumræðu hversdagsins.

Hér á landi þarf að byggja upp frekari þekkingu á utanríkismálum, þekkingu á alþjóðasamstarfi og öryggis- og varnarmálum og auka þekkingu almennings og umræðu meðal almennings og í samfélaginu um þau atriði. Umræða um alþjóðasamskipti getur nefnilega mótast hratt og kannski oft í þá átt sem við síst viljum. Þar á meðal er umræða sem snýr að frjálsum viðskiptum milli landa. Ég hugsa að mér sé óhætt að segja að einstaklingar í dag á aldrinum 45 ára og yngri þekki lítið annað en að geta stundað að mestu frjáls viðskipti milli landa, að geta menntað sig erlendis og jafnvel stundað vinnu þar og áfram mætti telja. Við tökum því sem frekar sjálfsögðum hlut. Ekkert af því er þó sjálfsagt og við erum sífellt að sjá fleiri dæmi þess að stjórnmálaleiðtogar vilji hefta viðskipti milli landa, setja á tollamúra, viðskiptahöft, hertari löggjöf og annað slíkt. Það er því okkar að halda á lofti mikilvægi þess að stunda frjáls viðskipti milli landa með allri þeirri hagsæld sem þeim fylgir.

Það má velta upp í tilefni af því hvort við ræðum EES-samstarfið nægilega oft. Ég hef velt því upp áður og ætla ekki nánar út í það hér en vonandi gefst tími til þess seinna á árinu þegar við ræðum skýrslu hæstv. ráðherra um EES-mál. Ég er ánægð að sjá meiri áherslu hjá hæstv. ráðherra á hagsmunagæslu í EES.

Mig langar að koma sérstaklega inn á fáeina þætti skýrslunnar og lýsi ánægju minni með skýrsluna í heild sinni. Hún er greinargóð og skýr, auðveld til lesturs fyrir fólk, sama hversu mikla dýpt og þekkingu það hefur í raun á utanríkismálum. Það er einstaklega gott að fá betra aðgengi að verkefnum og störfum utanríkisþjónustunnar eins og við fáum í skýrslunni. Einnig skýra skiptingu sendiráða o.fl. Það er mikilvægt að þingmenn og almenningur hafi gott aðgengi að skipulagi og starfsháttum þjónustunnar í þeirri umfangsmiklu vinnu sem hefur farið fram víða og að upplýsingum um hvernig fjármunum er háttað.

Ég vil þó byrja á að nefna stöðu Íslands í mannréttindaráðinu sem hefur gengið afar vel, eins og hefur komið fram hjá fleiri þingmönnum. Ég er ánægð með framgöngu Íslands í ráðinu og það er ljóst að vel hefur tekist að sinna því verkefni. Athyglin sem það hefur fengið er mikil og þar hefur hæstv. ráðherra og fylgdarlið staðið sig afar vel. Í fréttum fjölmiðla í öllum heiminum er fjallað um mál því tengdu, aðallega um mannréttindabrot í Sádi-Arabíu en gagnrýni á framgöngu stjórnvalda þar hefur vakið mikla athygli. Mikilvægt er að við stöndum vörð, ekki síst um málfrelsi, mannréttindi og m.a. þá kröfu okkar að sjálfstæð og óhlutdræg rannsókn fari fram á morðinu á Khashoggi. Þetta hefur vakið mikla athygli og það er gott að Ísland skuli fara fram með slíku fordæmi, af því að Ísland getur sem lítið land verið ansi stórt í mörgum málum.

Ég hlakka til að fylgjast með fundunum sem fara fram í júní og júlí þar sem jafnréttismál verða m.a. í brennidepli hjá mannréttindaráðinu. Þar getum við vægast sagt deilt reynslu okkar og verið stolt af því hversu langt við höfum náð. Aðrar þjóðir líta til okkar þegar kemur að jafnréttismálum og við eigum að standa keik og gefa ekkert eftir í því að reyna ávallt að gera betur á sama tíma og við miðlum reynslu okkar til annarra þjóða, en þetta er tíunda árið í röð sem við stöndum efst á þeim lista.

Ísland stendur vörð um jafnréttismál á öllum vígstöðvum, til að mynda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þegar kemur að þróunarsamvinnu Íslands, í rauninni hvert sem litið er. Það kemur ágætlega fram í skýrslunni.

Þá langar mig aðeins að nefna deild heimasendiherra sem fjallað er um í 10. kafla skýrslunnar. Við eigum eftir að öðlast reynslu af því nýja fyrirkomulagi en að mínu mati lofar byrjunin afar góðu. Vonandi skapar þetta aukna hagsmunagæslu landsins í fleiri löndum, ákveðið hagræði á sama tíma og það eflir samstarf landanna við fleiri lönd þar sem gæta þarf hagsmuna Íslands. Ég hlakka mikið til að fylgjast með því verkefni og sjá hvernig því vindur fram innan ráðuneytisins.

Það er líka gaman að í skýrslunni, þar sem mikið efni er undir, séu markmið og verkefni úr skýrslu utanríkisráðuneytisins til framtíðar sem hæstv. ráðherra kom með í upphafi ferils síns. Það er gott að geta fylgst með framvindu þeirra góðu verkefna sem miðað er að í framtíðarskýrslunni. Hún ber nafn með rentu, Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi. Það er einmitt hinn síbreytilegi heimur sem utanríkisþjónustan er að miklu leyti að reyna að svara og reyna að breytast í takt við. Það er að verða mikil tækniþróun og utanríkisþjónustan getur ekki verið þar eftirbátur. Við sjáum með skýrslunni, með heimasendiherrunum og alls konar öðrum verkefnum að við gefum ekkert eftir. Ég held að við megum vera afar stolt af því verkefni og verður gaman að sjá hvernig því vindur fram í skýrslunni sjálfri.

Við sjáum að við þurfum alltaf að gæta að varnarmálunum, setja þau í forgang þegar breytt öryggisumhverfi blasir við okkur. Þar kemur margt inn í, starf þjóðaröryggisráðs, samstarf Norðurlandanna og forysta okkar, fljótlega, í Norðurskautsráðinu þar sem við verðum meðal stórra þjóða og munum hafa mikið um málið að segja. Við munum geta komið áherslum okkar til leiðar næstu tvö árin og það eru auðvitað hagsmunir okkar að standa þar vörð og vinna að friði á svæðinu.

Ég er ánægð með þá samstöðu sem er varðandi þau mál. Virk þátttaka okkar í öryggismálum, líkt og annarra landa í Evrópu, er mikilvæg og við getum lagt mikið af mörkum. Við getum talað, og höfum gert það, máli jafnréttis, lýðræðis, mannréttinda og viðskiptafrelsis.

Ég er einnig ánægð að sjá í skýrslunni áherslu hæstv. ráðherra á netöryggismál, hvort sem það er innan Sameinuðu þjóðanna, NATO, NB8-ríkjanna eða annars staðar. Ég fagna samkomulagi okkar við netöryggissveit NATO og því samstarfi sem við eigum við grannríki. Við á Íslandi verðum að vera hluti af þeirri umræðu sem er í gangi í löndunum í kringum okkur og í þeim löndum sem við eigum í samstarfi við í þeim málaflokki líkt og öðrum.

Úr einu í annað. Mig langar að koma inn á þróunarsamvinnuna. Ég var afar heppin að fá tækifæri á þessu ári, líkt og hæstv. ráðherra og hv. þm. Logi Einarsson, til að skoða þá samvinnu sem við eigum í við Malaví. Um er að ræða tvíhliða samstarf, þróunarsamvinnu sem við höfum verið í í 30 ár og þá sér í lagi á þessu héraðsstigi, í héraðsverkefninu í Mangochi-héraði. Það var aðdáunarvert, leyfi ég mér að segja, að sjá þann árangur sem við höfum náð þarna síðustu ár, að sjá uppbyggingu í menntamálum, allar kennslustofurnar, alla umgjörðina, hve mikið það hefur breytt brottfalli nemenda úr skólum. Það er mikilvægast þegar kemur að aðgangi þessara nemenda að menntun að aðstaðan sé í lagi, að það sé matur í boði og kennarar við störf. Allt þetta hefur Ísland tryggt í Mangochi fyrir fjölda barna.

Við hittum þarna kennara sem lærðu til kennara á vegum Íslands og eru byrjaðir að kenna börnum í þeim skólum sem við höfum byggt upp, í bekkjum sem í eru fjölmargir nemendur. Það var afar gaman að sjá. Litla Ísland — en samt svo stórt — getur nefnilega gert magnaða hluti. Ljóst er að svona tvíhliða samstarf gengur vel hjá okkur og við náum árangri. Við sjáum uppbygginguna, við sjáum að þarna geta skólar orðið sjálfbærir þegar við förum að einbeita okkur að öðrum verkefnum í héraðinu.

Einnig má nefna, og yfir það er ítarlega farið í skýrslunni, flottar tölur og myndir um allt sem hefur verið gert. Má nefna vatnsbrunna, fæðingarþjónustu o.fl. Við höfum dregið úr dauðsföllum vegna barnsburðar kvenna og um 16.000 manns hafa betra aðgengi að vatni og hreinlæti svo dæmi séu tekin.

Af því getum við verið afar stolt og var einkar ánægjulegt að fá tækifæri til að sjá þetta með eigin augum. Það er allt öðruvísi að lesa um slíkt í skýrslu og sjá það svo raunverulega í Malaví og sjá hversu mikið við getum gert í héraði eins og Mangochi.

Við erum í tvíhliða samstarfi í tveimur ríkjum og verkefnið er stórt, enda um að ræða samstarf við lönd sem teljast með fátækustu löndum heims. Það er ljóst að við gerum vel og er góð umfjöllun um það í skýrslu ráðherrans.

Þá get ég varla sleppt að nefna Brexit og umræður sem hafa farið fram í utanríkismálanefnd um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir gott samráð við nefndina. Það hefur verið mikið. Við höfum fengið allar þær upplýsingar sem við höfum óskað eftir og alla fundi og hæstv. ráðherra hefur oft komið ásamt fólki úr ráðuneytinu.

Það er alveg ljóst að staðan hefur ekki verið auðveld. Hún breytist það hratt að þetta sem liggur útprentað hér um Brexit gæti orðið úrelt ansi fljótt.

Það sem verður ekki úrelt er að Bretland er á meðal mikilvægustu markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur og þess vegna er ég mjög ánægð með hvernig Ísland hefur haldið á málunum. Það er vel á þriðja þúsund Íslendinga sem búa þar og við erum að gæta hagsmuna okkar fólks og atvinnulífs, hvernig sem Bretland fer úr samstarfinu. Það er mikilvægt og við getum verið mjög stolt af þeirri metnaðarfullu vinnu.

Svona að lokum, þar sem tími minn er á þrotum, eru nefndir margir aðrir þættir í skýrslunni sem gefa tilefni til meiri umræðu. Ég vil að lokum minnast á það sem ég hóf ræðuna á, mikilvægi þess að við ræðum utanríkismálin meira, ekki aðeins í þessum sal heldur í samfélaginu öllu. Þau skipta okkur alveg tvímælalaust meira máli en við gerum okkur oft grein fyrir.

Það er til bóta og það er nauðsynlegt að við ræðum samstarfið sem við eigum í, þær áskoranir sem blasa við okkur, hvar við gætum helst hagsmuna okkar, hvar við gerum vel og hvar við getum gert enn þá betur og ekki síst þau tækifæri sem eru til til að láta gott af sér leiða í utanríkisþjónustunni. Ég held að umræðan hér sé til bóta. Þessi skýrsla er gríðarlega mikið og gott efni sem hægt er að nýta til umræðu um alls konar þætti utanríkismála. Ég fagna henni því og þakka kærlega fyrir umræðu sem hefur verið í þessum sal og verður áfram.