149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:34]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara örstutt bæta við að það er einmitt rétt sem hæstv. ráðherra kemur inn á, það er auðvelt að missa sjónar á því hversu stór heimurinn er og hversu fá við erum, löndin sem höfum þessi gildi að leiðarljósi. Ég held að við sjáum það helst í alþjóðasamstarfi, eins og þegar ég fer á vegum þingsins varðandi Alþjóðaþingmannasambandið — þegar maður sér nær allan heiminn inni í sama sal — hversu fá þau lönd eru sem standa vörð um mannréttindi og lýðræði.

Það er þetta sjónarhorn sem fleiri þurfa að átta sig á. Því að það hefur sjaldan verið mikilvægara að við og fleiri þjóðir sem höfum þessi gildi séum háværari og tökum af skarið. Eins og við erum að gera í mannréttindaráðinu. Þetta er allt mikilvægt. Ég held að fyrir okkur séu mikil tækifæri í utanríkisþjónustunni og ætla að þakka aftur hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu og góða umræðu.