149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ágætisræðu og ég skal með gleði og ánægju svara því sem þar kemur fram. Ef illa hefur verið haldið á málum varðandi orkupakka þrjú er það eiginlega innanflokksmál Miðflokksins, það liggur fyrir. Ef menn hafa áhyggjur af sæstreng ætti hv. þingmaður að tala við formann sinn um þau mál því að enginn íslenskur stjórnmálamaður hefur gengið lengra í að reyna að koma á sæstreng milli Íslands og Bretlands en hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hér í þinghúsinu kom fréttatilkynning um að vinna ætti að því með þáverandi forsætisráðherra Breta, David Cameron. Án nokkurrar umræðu samþykkir ríkisstjórn hans að við förum inn á PCI-lista sem við erum búin að taka okkur af. Síðan liggur fyrir og er rakið nákvæmlega í þingsályktunartillögunni, í greinargerðinni um orkupakkann og sömuleiðis í svari við fyrirspurn við spurningum frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni hvernig utanríkisráðuneytið á þeim tímum, þegar Miðflokksmenn voru með það, mat málið. Þeir höfðu ekki neinar áhyggjur af því.

Ég hef ekki heyrt neinn fræðimann halda því fram, eða neinn sem hefur skoðað málið, að í þriðja orkupakkanum sé eitthvað sem muni nokkurn tímann skylda okkur til að leggja sæstreng. Það er ekkert þar, það liggur alveg fyrir. Það var beðið um tvær undanþágur, þær fengust. Það var, getum við sagt, á ábyrgð Miðflokksins hvað beðið var um og hvað fékkst. Ég er svo sem ekki tilbúinn til að taka undir að menn hafi ekki haldið vel á spilunum hvað varðar hagsmunagæslu við þriðja orkupakkann. Ef svo er þá er það innanflokksmál Miðflokksins, það liggur hreint og klárt fyrir. Hver og einn sem skoðar málið getur séð það.

Ég held að hv. þingmaður ætti nú hvað það varðar að ræða það innan þingflokksins. Menn verða þá bara að koma hér og segja frá því hvað þeir gerðu ekki, hvað þeir hefðu átt að gera og hvaða hættur eru á ferðinni því að þetta er algerlega mál Miðflokksins.