149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður verður að ákveða hvaða orkupakka hann er að tala um. Það liggur alveg fyrir að rafmagnsverð mun ekkert hækka þó að við samþykkjum orkupakka þrjú. (BirgÞ: Það hækkaði við orkupakka eitt.) — Nú er hv. þingmaður byrjaður að tala um orkupakka eitt. (Gripið fram í.) Það er að vísu búið að taka það út og það hækkaði ekki en látum það liggja á milli hluta. Hv. þingmaður verður að ákveða sig, hvort hann er að tala um orkupakka eitt eða þrjú.

Ef hv. þingmaður (Gripið fram í.) — ég held að það sé nú allt í lagi að hann kalli úti í sal, en það er betra að koma hingað og ákveða hvað hann er að tala um. Hann talar gegn orkupakka eitt og heldur því fram að rafmagnið hafi hækkað en þeir sem hafa tekið það út hafa ekki komist að þeirri niðurstöðu. (BirgÞ: Þeir gera það víst.) — Það fer í taugarnar á hv. þingmanni að vitnað sé í úttektir.

(Forseti (WÞÞ): Utanríkisráðherra hefur orðið.)

Ef hagsmunagæsla vegna orkupakka þrjú hefur brugðist þá gerðist það hjá Miðflokknum, það er bara svo einfalt. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af sæstreng sem við höfum full tök á, enginn annar hefur haldið því fram. Við tókum okkur af PCI-listanum sem Miðflokkurinn setti okkur á. Miðflokkurinn gerði það. Það er Miðflokkurinn sem samdi við Cameron um að fara að kanna lagningu sæstrengs. Ekki þessi ríkisstjórn. Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir er að fara til Bretlands, ég get lofað hv. þingmönnum því að hún mun ekki taka neinar ákvarðanir með núverandi forsætisráðherra Bretlands um að fara að leggja sæstreng. Enginn sem það hefur kannað hefur haldið öðru fram en að við höfum full tök á því og ákveðum það alveg sjálf. Við erum að gera það sem ekki var gert áður, að sjá til þess að Alþingi Íslendinga þurfi að samþykkja það sérstaklega áður en farið er í nokkurn undirbúning varðandi sæstreng. Við ráðum því.

Ef hv. þingmaður er að tala um orkupakka eitt þá er það svolítið seint í rassinn gripið. Það er svolítið stórt mál ef menn ætla þá að fara úr öllum fjórða viðaukanum eða hvað hv. þingmaður vill gera. Ég vona að við fáum tækifæri til að ræða þessi mál. Hv. þingmaður er ekki að gagnrýna núverandi ríkisstjórn. Hv. þingmaður er að gagnrýna forystu Miðflokksins. Það geta allir sem vilja kynnt sér það. Það liggur hreint og klárt fyrir, skjalfest, og enginn vafi leikur á því. Hv. þingmaður þarf að skamma einhvern annan en þann sem hér stendur.