149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé rétt að fæstir vilji fara til baka. Ég er hins vegar ekki alveg jafn bjartsýn á að það sé nógu almennt viðhorf því að við sjáum ýmis merki um að við þurfum að standa vörð um þá línu sem við höfum þó náð í jafnréttismálum. Mig langar að nefna til að mynda þegar kemur að sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama, þegar kemur að þungunarrofi t.d. Þar hefur orðið bakslag í umræðunni í mörgum löndum og jafnvel líka á sviði löggjafar. Þetta gildir líka um réttindi ýmissa minnihlutahópa, svo sem hinsegin fólks í ýmsum löndum þar sem ást er í rauninni glæpur. Þannig að þó svo að okkur miði að flestu leyti fram á við eru ýmis teikn á lofti um að við þurfum að standa gríðarlega fast á því sem hefur áunnist og sækja fram og ekki hnika um örðu. Umræðan er svo sannarlega ekki alltaf konum eða jaðarsettum hópum í vil.

Ég vil svo taka undir að áherslan á drengi og karlmenn skiptir líka gríðarlegu máli. Þar held ég að líkt og er og var með kvennabaráttuna skipti rosalega miklu að virkja karlmenn og drengi í þá umræðu og að þeir tali fyrir því hver framtíðarsýn þeirra er.