149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu. Ég ætla að hlaupa á því helsta sem hér kom fram. Varðandi stjórnsýsluna tel ég skynsamlegt að hv. utanríkismálanefnd fari yfir þann þátt málsins og geri það í tengslum við fjármálaáætlun. Við setjum þessa hluti fram, eins og fram hefur komið, á myndrænan hátt og með allar tölur inni, í meira mæli en áður hefur verið gert. Tilgangurinn er að fjármál utanríkismála séu eins gegnsæ og orðið getur og síðan þurfa menn bara að ræða þá hluti eins og þeir eru.

Hv. þingmaður spyr um endurskoðun norðurslóðastefnunnar. Frá mér kom hugmynd, sem var kynnt í hv. utanríkismálanefnd, um næstu skref hvað það varðar. Ég hef séð fyrir mér að við verðum með sambærilega nefnd og stundum hefur verið, með þingmönnum allra flokka. Auðvitað er það sjónarmið hjá smærri flokkunum að erfitt sé að koma því við en það snýst kannski ekkert um að þingmenn muni sjálfir skrifa langa doðranta, menn hafa aðgang að sérfræðingum og öðru slíku. Það hefur verið þverpólitísk samstaða um norðurslóðamálin og það er mjög mikilvægt að svo verði áfram. Ég held að best fari á því að þingmenn komi beint að því máli, ekkert ósvipað og með þjóðaröryggismálin.

Þessi hugmynd, að miðla upplýsingum á milli tungumála, kallar fram þessa spurningu sem fyrstu viðbrögð: Bíddu, af hverju er ekki búið að gera þetta? Hún hljómar mjög vel og við skoðum hana. Ef hún er ekki í farvegi þurfum við að skoða það. Í öllum okkar málum leggjum við áherslu á málefni hafsins vegna þess að það er kannski svolítið munaðarlaust í öllu alþjóðasamstarfi. Það er alls staðar, það er í Norðurlandasamstarfinu, það er í NB8. Við erum alls staðar með málefni hafsins, m.a. af ástæðum sem hv. þingmaður nefndi. Ég mun síðan halda áfram niður listann í seinna andsvari.