149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið en þakka fyrir þessi svör og það koma fleiri á eftir. Varðandi upplýsingamiðlunina í vísindasamstarfinu þá kann ég ekki skýringu á þessu heldur en kannski er það einfaldlega þessi ofuráhersla á ensku. Menn ganga bara út frá því sem vísu að vísindamenn, sem eru jafnvel í samstarfi, séu það góðir í ensku að það sé ekkert mál að nota hana. Það er auðvitað það tungumál sem notað er á ráðstefnum. Ég hef setið þær margar og ég veit hve margir eiga hrikalega erfitt með, margir útlendingar, bæði að tjá sig og skilja það sem þar fer fram. Þessi þjónusta held ég að myndi skipta miklu máli. Við erum jú með risalönd sem stunda rannsóknir, hvort það eru Kína eða Rússland, þar sem ég held að þetta myndi skipta máli og reyndar víðar.

Varðandi hafið, bara örfá orð. Það er munaðarlaust, það er líka rétt. Bara Ísland er jú með hafsvæði sem er sjö- til áttfalt okkar flatarmál. Það eru hafsvæði við strendur hinna ríkjanna átta sem eru uppeldisstöðvar dýra sem eru viðkvæm fyrir mengun. Ég er alveg sannfærður um að ef ráðist yrði í að leita samnings eins og verið hefur gert varðandi björgun og leit, varðandi vísindasamstarf og núverandi fiskveiðar, þá væri hægt að ná þeim árangri að fleiri þjóðir — við eigum okkar Breiðafjörð — færu að hugsa á þessum nótum og gera eitthvað. Bretar hafa sýnt sérstakt frumkvæði með því að búa til stefnu sem varðar þeirra yfirráðasvæði, skulum við segja, kannski ekki rétta orðið en ég er að tala um sambandsveldið, þar sem þeir ætla sér að ganga fram fyrir skjöldu í friðunarmálum.