149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að vera mjög langorður um þessa skýrslu ráðherra, en langaði þó til að koma inn á eitt atriði. Ég vil byrja á að biðjast forláts á að hafa ekki tekið með mér aukaeintak til að skjóta því að hæstv. ráðherra, en ég skil plaggið eftir á borðinu komi hann upp í andsvar.

Þann 8. janúar sl. var skýrslu skilað frá Evrópuráðsþinginu og var framsögumaður sir Robert Gale, sem er fulltrúi íhaldsmanna í Bretlandi. Skýrslan heitir: The Progress of the Assembly´s monitoring procedure and periodic review of the honoring of obligations by Iceland and Italy. Ísland og Ítalía eru þarna tekin saman. Sambærileg skýrsla er gerð árlega. Ég hef ekki lesið skýrslu ársins á undan, en sem fulltrúi á Evrópuráðsþinginu fór ég í gegnum þessa skýrslu þegar hún kom út núna.

Þarna eru atriði sem mig langar til að benda á og vekja athygli á og heyra sjónarmið ráðherrans gagnvart. Í 4. gr. er fjallað um samskipti Íslands og stofnana Evrópusambandsins. Í seinni hluta er fjallað um hvernig Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu 1994, síðan Schengen og fleira slíkt. Í lauslegri þýðingu segir: Þrátt fyrir þetta nána samstarf þá er aðildarumsókn — sem sagt um aðild að Evrópusambandinu — mjög umdeilt mál milli stjórnmálaflokka á Íslandi. Ísland og Evrópusambandið opnuðu formlegar aðlögunarviðræður 2010. 2015 sendi þáverandi utanríkismálaráðherra bréf til Evrópusambandsins þar sem hann dró til baka aðildarumsókn Íslands án samþykkis Alþingis.

Svo kemur lokasetning málsgreinarinnar, sem ég ætla, með leyfi forseta, að byrja á að lesa á ensku:

„However the European Union stated that Iceland had not formally withdrawn the application.“

Sem sagt: Þrátt fyrir þetta bréf utanríkisráðherrans þá staðhæfir, fullyrðir, Evrópusambandið að Ísland hafi ekki dregið aðildarumsókn sína til baka. Þetta plagg trompar ekki utanríkisstefnu okkar ágæta utanríkisráðherra og stjórnvalda. En það er auðvitað athyglisvert að þessi afstaða Evrópusambandsins sé römmuð inn með þessum hætti í þessu plaggi frá Evrópuráðsþinginu þar sem niðurstaðan, niðurlag málsgreinarinnar, er, með leyfi forseta, aftur:

„However The European Union stated that Iceland had not formally withdrawn the application.“ — Sem sagt: Ísland hefur ekki formlega dregið aðildarumsókn sína til baka.

Ég óska eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra við þessu. Ég veit að hann er enginn sérstakur áhugamaður um að ganga í Evrópusambandið, en þessi afstaða liggur engu að síður þarna fyrir í skýrslu um Ísland og mig fýsir að vita hvort þetta sé afstaða Evrópusambandsins eins og það horfir við utanríkisráðuneytinu eða hvort afstaðan sé einhver önnur? Ég leyfi mér að skilja þetta plagg hér eftir, því ég veit að hæstv. ráðherra, Liverpool-aðdáandinn, vill endilega fá að lesa textann.