149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir þetta. Hann verður eiginlega að ræða þetta á þingflokksfundi Miðflokksins. Það voru hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson sem trilluðu til Brussel. Ég skal alveg gangast við því að ég hef ekki fundið fyrir því að menn telji að við séum með aðildarumsókn í gangi. Ég held það sé hægt að orða það þannig að mín afstaða til Evrópusambandsins sé mjög vel þekkt í Brussel. Það er alls ekki þannig að menn líti svo á að það sé líklegt að sá sem hér stendur muni nokkurn tíma undir nokkrum kringumstæðum beita sér fyrir því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að það væri rétt að þetta yrði sömuleiðis rætt í hv. utanríkismálanefnd og farið yfir bréfin sem voru send og bréfin sem hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson fóru með til Brussel og borið saman við fréttatilkynninguna sem var send innan lands, þýðingarnar t.d. Ég held það væri kjörið fyrir hv. utanríkismálanefnd að fara yfir þetta. Það vita allir mína afstöðu, bæði innan lands og utan, án þess að ég vilji gera því skóna að ég sé heimsfrægur — ég er algerlega laus við það, en þó þekktur meðal kolleganna í Evrópusambandinu. Það hefur enginn þorað að minnast á það við mig hvort ég væri ekki til í að beita mér fyrir því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Svo sannarlega hef ég ekki orðið var við að þeir líti svo á að við séum með aðildarumsókn í gangi. En þetta er eitthvað sem hv. þingmaður ætti að taka upp og biðja sinn fulltrúa í hv. utanríkismálanefnd að kynna fyrir nefndinni. Ég veit í sjálfu sér ekkert annað um þetta mál, hv. þingmaður (Forseti hringir.) er að kynna þetta núna og skilja þetta ágæta plagg hér eftir, sem ég hef ekki tækifæri til að lesa á þessum tveimur mínútum.