149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[18:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef litið svo á að skylda okkar og stefna sé að vekja athygli á mannréttindabrotum og reyna að vera samkvæm sjálfum okkur hvað það varðar. Hv. þingmaður vísar í samfélag Filippseyinga á Íslandi, sem er frábært fólk og mikill styrkur fyrir íslenska þjóð að fá þetta góða fólk hingað. Það á að sjálfsögðu hlusta eftir því sem þetta góða fólk segir, en hins vegar getum við ekki treyst neinu öðru en þeim samtökum og stofnunum í alþjóðasamfélaginu sem við alla jafna treystum á. Við höfum engin önnur tæki til þess. Ég get ekki sent 20 eða 30 þingmenn eða starfsmenn utanríkisþjónustunnar til að taka út ástandið í viðkomandi löndum.

Ég vil samt vekja athygli á því — þar sem ég hef alltaf gert þetta á fundum og við erum núna t.d. að setja mannréttindamálin í brennidepil þegar kemur að þróunarmálum — að þegar hv. þingmaður mun gera þetta á einhverjum vettvangi mun hann alltaf fá réttlætingar.

Og það er ekki þannig að það sé ekkert til í þeim. Ég man t.d. eftir að utanríkisráðherra vísaði til að þeir yrðu að hækka laun lögreglumanna sem voru svo lág að það er örugglega erfitt fyrir þá að draga lífið fram og mikil hætta á því að þeir yrðu t.d. fyrir mútum og öðru slíku. Ég hrósaði kollega mínum hvað það varðaði. En mér fannst ekki gott að hann var ekki tilbúinn til að hleypa þeim stofnunum eða samtökum sem við treystum til að skoða málið.

Það hafa allir samúð með þeim aðilum sem berjast gegn glæpum. En oft hefur það verið þannig að menn hafa farið fram með (Forseti hringir.) góðan ásetning, en á leiðinni hefur ýmislegt gerst. Um það eru mýmörg (Forseti hringir.) dæmi í sögunni eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel.