149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[18:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að játa að ég hélt að mér hefði misheyrst þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns og hann, á mjög léttúðugan hátt að mínu viti, afskrifaði áhyggjur fólks af mannréttindabrotum á Filippseyjum sem falsfréttir. En svo kom í ljós í andsvörum við hæstv. utanríkisráðherra að það er bjargföst skoðun hv. þingmanns.

Er það skoðun hv. þingmanns að upplýsingar frá til að mynda Amnesty International, sem talar um grun um þúsundir ólöglegra aftaka eða drápa af hendi lögreglu á Filippseyjum, byggi allar á misskilningi og falsfréttum? Ég veit eiginlega ekki hvað á að segja við slíkum málflutningi. Ég er of kurteis maður til að segja það sem ég helst vil segja hér í pontu.

Human Rights Watch birti í ársskýrslu sinni 2018 tölur um 4.948 grunaða eiturlyfjanotendur og -sala sem dáið hafa frá 1. júlí 2016 til 30. september 2018 í stríðinu gegn eiturlyfjum. Hvaðan hefur Human Rights Watch þá tölu? Jú, frá yfirvöldum í Filippseyjum, því sem heitir upp á ensku, með leyfi forseta, Philippine Drug Enforcement Agency.

Alþjóðaglæpadómstóllinn tilkynnir að hann ætli að rannsaka þetta, hefja forrannsókn á því. Getur verið að það að tæplega 5.000 manns séu drepin á ekki lengri tíma í stríði gegn eiturlyfjum þýði að eitthvað sé ekki í lagi? Í febrúar árið 2018, mánuði síðar, tilkynnir forseti Filippseyja að hann muni draga landið úr Alþjóðaglæpadómstólnum. Og hér stendur hv. þingmaður, í forréttindastöðu sinni á Íslandi, og kallar þær hörmungar falsfréttir. (Forseti hringir.) Mér er misboðið, forseti.