149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[18:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég nenni ekki neinni tæpitungu þegar kemur að jafn alvarlegum málum og þessu. Hv. þingmaður fann sig knúinn til að koma upp í aðra ræðu í umræðunni, leggja lykkju á leið sína til að agnúast út í hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa talað um mannréttindabrot fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, meint mannréttindabrot Filippseyja. Þetta er eins og maður sé staddur í leikriti, forseti. Heimsbyggðin öll hefur áhyggjur af mannréttindabrotum á Filippseyjum. Það eru væntanlega ekki tíðindi fyrir hv. þingmann. Hann vill núna fara að rannsaka hlutina. Já, Alþjóðaglæpadómstóllinn ætlaði einmitt að fara að rannsaka hlutina. Hvernig var tekið í þá rannsókn? Ég fór yfir það í fyrra andsvari.

Ég ætla mér það ekki að ég geti sagt til um hverjar starfsaðferðir lögreglu eiga að vera í öðrum löndum. Ég ætla ekki að standa í minni forréttindastöðu, svo að ég segi það aftur, uppi á hinu friðsamlega Íslandi og afgreiða aðgerðir sem öll samtök og stofnanir sem huga að mannréttindum í heiminum hafa áhyggjur af eins og þær séu ekki neitt. Hvað er blessaður utanríkisráðherrann okkar að gera þarna úti í heimi að tala um þetta? Forsetinn er vinsæll hjá Filippseyingum. Hvað eruð þið að skipta ykkur af þessu? Mér finnst þetta ekki boðlegt.

Ég hefði frekar haldið að átt hefði að klappa á öxlina á hæstv. utanríkisráðherra. Ég ætla hér með að fagna því sérstaklega að hann hafi vakið athygli á þessu. Ég vona að við öll í salnum, sama hverrar skoðunar eða trúar við erum, munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að rannsaka öll meint mannréttindabrot í Filippseyjum og grípa til allra þeirra aðgerða sem við getum ef upp kemst að grunurinn á rétt á sér.(Gripið fram í: [Heyr, heyr.])