149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[18:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að ég komi í annað sinn í ræðu og ræði þetta. Er það ekki réttur minn, hv. þingmaður? Ég hrósaði hæstv. utanríkisráðherra fyrir framgöngu hans í ráðinu hvað varðar Sádi-Arabíu. Ég er hins vegar ekki sammála honum í málefni Filippseyinga og hvet hann til þess að stíga varlega til jarðar í þeim efnum, vegna þess að málið er mjög flókið og allar upplýsingar liggja ekki fyrir. Það ber að rannsaka þær og í framhaldi af því getum við fordæmt þetta mál. Það er bara þannig vaxið. (Gripið fram í.) Fagnar hv. þingmaður því ekki að glæpatíðni í þessu landi hafi fækkað um allt að 70%, að nú geti fólk um frjálst höfuð strokið sem býr þar? Hefur viðkomandi hv. þingmaður heimsótt þetta land og skoðað aðstæður þar sjálfur?

Er ekki einhver ástæða fyrir því að almenningur í landinu styður þennan forseta, upp undir 70–80% þjóðarinnar styðja forsetann? Er ekki einhver ástæða fyrir því? Eigum við að láta eiturlyfjaglæpagengi vaða uppi og gera það að verkum að fólk getur ekki um frjálst höfuð strokið í landinu? Ferðamenn þora ekki að fara þangað o.s.frv. og almenningur þorir ekki að ganga á götum úti að kvöldi til. Það þarf að koma í veg fyrir að menn geti vaðið uppi eins og gert hefur verið í landinu.

Við eigum hins vegar að rannsaka það hvort þessar staðhæfingar standist, ég er algjörlega sammála því. Mér finnst hins vegar ekki rétt á þessum tímapunkti að íslensk stjórnvöld fordæmi málið á þann hátt sem var gert í mannréttindaráðinu. Það kann vel vera að niðurstaðan verði síðan sú að við gerum það, gott og vel, en ég tel að sá tímapunktur sé ekki kominn. Málið er flókið og það þarf að rannsaka betur og fá niðurstöðu í það áður en við gerum slíkt.