149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[11:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Já, það er rétt að ég styð þetta mál. Það er alltaf gott þegar við verjum meira fé og öxlum ábyrgð sem rík þjóð gagnvart fátækt, órétti, ójöfnuði og örbirgð annars staðar í heiminum. Það er líka rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, að hún og ég fengum tækifæri til að sjá með eigin augum árangur af slíku starfi í Malaví fyrr á þessu ári. Það var bókstaflega stórkostlegt að sjá að lítið land geti, með skynsamlegri aðferð tvíhliða samstarfs, áorkað svona miklu og ekki síst hjálpað til við að byggja upp innviði og þekkingu í stjórnsýslunni þarna niður frá til að ráðast gegn fátækt, kynjamisrétti og öðru slíku.

Það er kannski þess vegna sem ég er á þessu máli með fyrirvara að ég tel að við ættum að gera betur. Stór hluti af alþjóðlegum skuldbindingum okkar er einmitt að ráðast gegn fátækt með þróunarsamvinnu. Mér finnst rétt og slétt þessi þingsályktunartillaga fullmetnaðarlítil. Þó að krónutalan hafi verið að hækka síðustu ár, m.a. með auknum þjóðartekjum, breytingum á gengi og öðru slíku, er þetta langt frá því að við getum verið fullsæmd af. Áform eru um að framlag okkar verði 0,35% í lok fimm ára fjármálaáætlunar og erum við þá enn langt frá því að ná þeim markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem nefndin hnykkir á og reyndar stendur það líka í þingsályktunartillögunni að við eigum sem iðnríki að geta náð því.

Það sem ég hef við tillöguna að athuga, auk þess að við hækkum þetta ekki meira en gert er ráð fyrir, er að mér finnst það ekki koma nógu skýrt fram í þingsályktunartillögunni hvenær við ætlum að gera það. Ég átta mig á því að þetta er fimm ára áætlun og talað hefur verið um að það geti verið flókið að setja tímasett markmið þar. En mér finnst samt að víkja hefði mátt að því.

Mig langar að bera saman hvernig þessu er háttað meðal nágranna okkar, þ.e. í þeim löndum sem við berum okkur saman við og viljum bera okkur saman við. Við erum í forystu í norrænu ráðherranefndinni og hæstv. utanríkisráðherra skrifar í skýrslu sína að við séum í forystu meðal frændþjóða. Mér finnst holur hljómur í slíkum yfirlýsingum þegar við erum mjög aftarlega á merinni í mörgu þó að við getum auðvitað sýnt fram á góðan árangur, jafnvel í samanburði við þau, á öðrum sviðum.

Það land sem leggur mest til þróunarsamvinnu er Svíþjóð með 1,4%, Noregur er með 1,05%, Danmörk með 0,85% og Finnland með 0,56%. Sú upphæð hefur reyndar verið að lækka í tíð hægri stjórnarinnar þar á síðustu árum, en ég bind vonir við að það muni breytast vegna þess að einhverjir flokkar hafa lýst yfir tímasettum markmiðum um að ná þessu aftur upp í 0,7%. Auk okkar eru Finnar þeir einu sem ekki hafa náð þessu. Þar fyrir utan finnst mér að enn skýrar hefði átt að ræða hversu stór hluti af eyrnamerktri þróunarsamvinnu fari til innanlandsaðstoðar við hælisleitendur og flóttamenn. Ég átta mig á því að það getur alltaf þurft að vera eitthvað og mér skilst að meðaltalið hjá þessum DAC-þjóðum sé 12%. Hér eru þetta 36%, að mig minnir, og það er allt of mikið, a.m.k. þarf þá að vera mjög skilgreint hvað liggur á bak við. Vinna er hafin við að uppfylla þessi nýju markmið DAC eins og ráðherra lýst yfir vilja til að gera. Mér skilst að frá og með 2019 breytist það þannig að auðvitað horfir margt til betri vegar. Hér er ekki um neinn ágreining í þinginu að ræða. Ég held að við séum öll, sem betur fer, samstillt um að við verðum að gera vel á þessu sviði. Okkur greinir þá einungis á um hversu hratt okkur tekst að gera það. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við stígum fast til jarðar og sýnum með afdráttarlausum hætti að við ætlum okkur að sýna metnað í þessu.

Við horfum upp á jarðarkringlu sem glímir við gríðarleg vandamál. Þar getum við nefnt ójöfnuð, við getum nefnt ófrið og svo loftslagsógnina sem ekki mun síst bitna á þeim þjóðum sem reiða sig á þróunarsamvinnu. Ég held að við á Vesturlöndum skuldum hreinlega mörgum ríkjum í fjarlægari heimshlutum það að koma með myndarlegum hætti að málum. Fyrir utan að það er auðvitað öllu mannkyninu til góða ef lönd ná almennt að reisa sig upp úr fátækt. Við náum aldrei að vinna bug á þessum þremur ógnum, ófriði ójöfnuði og loftslagsógninni, nema lönd verði jafnsettari þegar kemur að lífsgæðum.

Ég fagna því auðvitað að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram og mun greiða henni atkvæði mitt vegna þess hún stefnir í rétta átt. En að því sögðu finnst mér hún ganga of skammt og vera of metnaðarlaus. Við ættum að geta gert betur.