149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[14:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson í andsvörum við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur hér áðan. Ég segi líka: Kærar þakkir fyrir þessa vel unnu þingsályktunartillögu. Þetta er mikið verk og í 49 liðum eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði okkur hér áðan, og ég hef lesið. Þetta er metnaðarfullt verk. Ég er svo lánsöm að vera í þessari þingmannanefnd um málefni barna sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra skipaði á dögunum og þetta snýr allt að því. Okkur hefur gengið vel. Þetta er mjög mikið starf og ég get glatt hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur með því að segja að þarna er mikill metnaður og gríðarlega mikil samstaða um að taka utan um börnin okkar eins og við best getum.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég hefði viljað sjá pínulítið meira. Það hefur komið fram að um 10–15% barna á Íslandi búa við fátækt. Það kom í ljós í skýrslu sem Kolbeinn Stefánsson vann fyrir Velferðarvaktina og birti 28. febrúar sl. Það er í raun þyngra en tárum taki að standa í þessum sporum árið 2019, með barnasáttmálann í gildi frá því í janúar 2013, hann er orðinn ríflega sex ára gamall. Það er ekki bara að við séum að svipta börnin okkar, mörg hver, æskunni, gleðinni sem felst í því að geta tekið þátt í félagsstarfi með öðrum börnum, geta látið sína meðfæddu hæfileika blómstra, hvort sem er á sviði afreksíþrótta, tónlistar eða hvers sem er — nei, þau þurfa að sitja heima af því að þau eru of fátæk, það er of dýrt að taka þátt í hinu svokallaða velferðarsamfélagi sem við búum við í dag. Mér finnst með ólíkindum að maður skuli þurfa að segja þetta hér á hinu háa Alþingi í dag. Það er eiginlega ótrúlegt en þetta er samt satt. Barnasáttmálinn hefur verið í gildi hér, var lögfestur fyrir rúmum sex árum, og enn erum við að glíma við tálmun þar sem börnum er í raun meinað að umgangast báða foreldra sína. Virðulegi forseti, það er með ólíkindum.

Við erum komin með þessa þingmannanefnd og mér finnst hún vera öll af vilja gerð. Við höfum virkilega tekið saman höndum, fengið fólk alls staðar að úr samfélaginu sem kemur að málefnum barna. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn, hóflega bjartsýn þó. Það vantar ekki viljann, en það er einhvern veginn — ég skil það ekki. Ég hef aldrei skilið það, ég er kannski ekki eins mikill pólitíkus og maður ætti kannski að vera miðað við það að vera kjörinn fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Ég get ekki skilið hvers vegna ríkisstjórn, meiri hluti, og stjórnarandstaða geta ekki tekið höndum saman um góð málefni sem virkilega varða velferð fólksins í landinu. Og nú erum við að tala um börnin okkar. Ég get ekki skilið hvers vegna í veröldinni ekki ætti að taka utan um virkilega vel fram færðar og vel gerðar tillögur til breytinga þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki haft hugmyndaflug til að leggja þær fram sjálf.

Ég segi: Betur má ef duga skal og rót alls ills er fátæktin í þessu landi. Rót alls ills í samfélaginu er fátækt. Hún á ekki að eiga sér stað. Hvernig væri að við byrjuðum á grunninum og byrjuðum á því að útrýma fátækt þessara barna og gefa þeim kost á að taka þátt í samfélaginu? Í öðru lagi að gefa þeim kost á því að umgangast báða foreldra sína. Í þriðja lagi að koma í veg fyrir, þegar verið er að grípa inn í aðstöðu barna sem eiga erfitt í foreldrahúsum, að þau séu látin daga uppi í kerfinu í allt að tvö ár án þess að fá úrlausn sinna mála, hvað um þau á að verða. Það er lítilsvirðing fyrir þau að þau séu bara eins og partur af prógrammi, kerfi — og við erum að tala um litlar manneskjur sem þurfa fyrst og síðast á hjálp okkar og stuðningi að halda.

Það hefur komið í ljós að sú staða kemur jafnvel upp að barnið er það lengi að velkjast um í kerfinu að það er bara sagt: Já, félagslega og fyrir barnið er ekki líðandi að ætla að kippa því aftur til baka. Það er búið að týna öllum tengslum við foreldri sitt þannig að því er fyrir bestu að sleppa því alveg að vera í samneyti við það foreldri. Hvers lags samfélag er þetta sem við lifum í?

Það er með ólíkindum að standa hér, vera kjörinn fulltrúi — og fólkið gengur í kjörklefann í góðri trú um að það sé að velja sér valdhafa sem hugsi um þess hag. Við erum þau sem setjum reglurnar. Það fer allt fram hér á hinu háa Alþingi. Svo erum við með allt á hælunum þegar kemur að því að hlúa að okkar minnstu bræðrum og systrum og taka utan um börnin okkar þó að við höfum haft barnasáttmálann í gildi í rúm sex ár.

Það er miklu meira en þess virði, fyrir alla þá sem kjörnir eru á Alþingi Íslendinga, að taka utan um þá 49 liði sem Samfylkingin hefur lagt fram til að bæta stöðu barna. Mér er alveg sama hvaðan gott kemur og mér er alveg sama þó að það sé talið furðulegt að maður skuli ganga yfir einhverjar flokkslínur. Mér er alveg sama þó að ég sé ekki pólitíkus. Ég vil bara sanngirni, réttlæti og hugsjón í þessum háu sölum hér, og fyrst og síðast að við reynum að koma vel fram við fólkið sem kom okkur í þá stöðu sem við erum í hér á Alþingi Íslendinga.