149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[14:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í fjármálaáætluninni er sett fram stefna og þar þarf að hengja peninga á málasvið og auðvitað þyrfti að gera eins og með öll mál og allar stórar stefnur. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemdir varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi og síðast 2012 og það er von á næsta pakka.

Sú athugasemd hefur verið gerð að ekki sé til tímasett aðgerðaáætlun yfir málefni barna á Íslandi, að skipulagið og ferlarnir og stefnan sé ekki í nægilega föstum skorðum og það þurfi að laga og gera. Það er í þeim anda sem þessi þingsályktunartillaga var lögð fram af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar og það er í þeim anda sem ég vona að okkur lánist að vinna með málefni barna.