149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

efling björgunarskipaflota Landsbjargar.

125. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um eflingu björgunarskipaflota Landsbjargar, frá umhverfis- og samgöngunefnd.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Ásgrím L. Ásgrímsson frá Landhelgisgæslu Íslands og Jón Svanberg Hjartarson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Nefndinni bárust umsagnir frá Hafnasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasambandi Íslands og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að stuðla að endurnýjun stærri björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar með fjárframlagi úr ríkissjóði sem nemi allt að 100 millj. kr. á ári næstu tíu árin. Slysavarnafélagið Landsbjörg verði ábyrgt fyrir rekstri skipanna með sambærilegum hætti og nú er.

Umsagnaraðilar tóku allir undir efni tillögunnar og töldu endurbætur á skipaflota félagsins nauðsynlegar og löngu tímabærar. Fyrir nefndinni kom fram að björgunarskip félagsins eru flest á bilinu 30–40 ára gömul en þau eru 13 talsins. Þau séu viðhaldsfrek og í raun barn síns tíma. Ljóst sé að það þurfi að endurnýja helming flotans á næstu fimm árum. Þá þurfi að vera búið að endurnýja öll skipin innan tíu ára.

Á fundi nefndarinnar kom jafnframt fram að skipin sinntu 50 útköllum á síðasta ári, þar af 29 útköllum þar sem neyðarástand ríkti. Mikilvægi skipanna við björgun á sjó er ótvírætt að mati nefndarinnar og skiptir sköpum að skipin standist nútímakröfur, m.a. um ganghraða, til að tryggja lágmarksviðbragðstíma við leit og björgun. Miklar framfarir hafa orðið á hönnun og smíði skipa í þessu tilliti á undanförnum árum og telur nefndin nauðsynlegt að skip sem ætluð eru til björgunar sitji ekki eftir heldur njóti hags af þeirri þróun.

Heildarkostnaður endurnýjunar skipaflotans er áætlaður um 2 milljarðar kr. og er ljóst að slík fjárfesting verður ekki gerð með sjálfsaflafé einu. Nefndin tekur undir sjónarmið flutningsmanna tillögunnar um að eðlilegt sé að ríkið komi að fjármögnun verkefnisins, þ.e. allt að helmingi kostnaðar þess, en ljóst er að útgjöld ríkissjóðs vegna þess verða umtalsverð. Þar sem ekki er búið að greina endanlegan kostnað verkefnisins og þar með hlut ríkisins telur nefndin rétt að málið verði útfært nánar, skipulagt og unnið í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Í ljósi þess að um háar fjárhæðir er að ræða leggur nefndin áherslu á að vandað sé til verka og viðeigandi reglum og sjónarmiðum, svo sem um útboð og skynsamlega nýtingu opinbers fjár, sé fylgt við útfærslu verkefnisins.

Málið snertir starfssvið nokkurra ráðuneyta, þar á meðal samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Að mati nefndarinnar er æskilegt að forsætisráðherra, sem gegnir samræmingar- og samhæfingarhlutverki að því er varðar samstarf ráðuneyta, taki málið til skoðunar og tryggi þessu brýna verkefni framgang og fjármagn landsmönnum öllum til heilla.

Samkvæmt framangreindu leggur nefndin til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Vilhjálmur Árnason, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Bergþór Ólason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Undir það skrifa Jón Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bergþór Ólason, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Virðulegur forseti. Hér er um mjög brýnt mál að ræða. Þetta er stærsta fjárfestingarverkefni sem Slysavarnafélagið hefur ráðist í í 90 ára sögu félagsins. Vinna við undirbúning gengur ágætlega og eins og fram kemur í nefndaráliti og í tillögunni sjálfri er áætlað að kostnaðurinn sé um 2 milljarðar. Það er félaginu ofviða að ráða við slíka fjárfestingu eitt og sér.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það, virðulegi forseti, hversu hagkvæmt skipulag ríkir hér þegar kemur að leit og björgun og stöðu björgunarmála í okkar samfélagi. Slysavarnafélagið Landsbjörg með allt sitt öfluga sjálfboðaliðastarf gegnir þar lykilhlutverki og er burðarásinn í öllu almannavarnakerfi landsins. Fámenn þjóð í stóru landi hefur auðvitað ómældan hag af því hversu vel hefur tekist til við uppbyggingu, þjálfun og fjárfestingar í tækjabúnaði sem tengjast þessu starfi. Ríkið hefur lagt sitt á vogarskálarnar. Við fellum niður aðflutningsgjöld af tækjum og búnaði fyrir björgunarsveitirnar. Þær njóta nokkurs styrks úr ríkissjóði til fastra verkefna en að öðru leyti fjármagna björgunarsveitirnar starfsemi sína sjálfar.

Fagmennska á þessum vettvangi er eftirtektarverð. Það er sama hvort um er að ræða björgunarstörf á alþjóðavettvangi eða innan lands. Það eru fá lönd sem búa við jafn öfluga og víðtæka starfsemi þegar kemur að leit og björgun eins og við Íslendingar gerum og einhvern veginn er það samofið þjóðarsálinni hvernig þetta hefur byggst upp. Þetta öfluga starf skipar stóran sess í samfélaginu og við stöndum í þakkarskuld við það fólk sem á hverjum tíma leggur fram krafta sína í þessu fórnfúsa starfi. Við stöndum í þakkarskuld við vinnuveitendur þeirra sem taka þátt í þessu starfi með því að hleypa fólki yfirleitt til starfa á neyðarstundu án þess að draga af því laun. Þannig er þetta sameiginlegt átak allra landsmanna, þeirra einstaklinga sem í þessu starfa, fyrirtækjanna sem fólkið starfar hjá og ríkisvaldsins.

Hér er verið að fara í mjög mikilvæga endurnýjun björgunarskipaflota félagsins sem er orðinn gamall. Þessi skip voru endurnýjuð á árunum eftir 2000 og þá var stærri björgunarskipum fjölgað hringinn í kringum landið og eru nú 13 talsins. Þau gegna mjög veigamiklu hlutverki í nánu samstarfi við Landhelgisgæsluna og stjórnstöðvar hennar. Oft eru þetta einu viðbragðsaðilarnir sem eru til reiðu víða á landinu þegar um er að ræða hættuástand á sjó og bregðast við ásamt skipum og bátum sem eru í nágrenninu.

Kröfurnar hafa breyst í gegnum tíðina og þörfin hefur breyst og má tengja það að hluta til við breytt munstur í samfélaginu og fjölgun ferðamanna. Það færist sífellt meira í vöxt að björgunarskip félagsins og áhafnir þeirra þurfi að bregðast við í sjúkraflutningum til einangraðra staða á landinu. Vil ég nefna til að mynda Austfirði og Vestfirði og reyndar víðar og þá skiptir hraðinn orðið meira máli en kannski áður og ekki síður skiptir máli sú aðstaða sem er um borð fyrir áhafnir skipanna.

Í þessu verkefni verður ekki farið í að finna upp hjólið. Nágrannaþjóðir okkar, samstarfsþjóðir á þessum vettvangi, samstarfsfélög Landsbjargar í Evrópu, hafa í áratugi og jafnvel lengri tíma þróað með sér samstarf á þessum vettvangi. Nokkrar skipasmíðastöðvar eru til sem hafa sérhæft sig í byggingu á skipum fyrir sjóbjörgunarfélög, sambærileg því sem Slysavarnafélagið Landsbjörg er. Það er nú verið að meta og kostnaðargreina verkefnið en það liggur nokkurn veginn fyrir hver stærðin er, hún verður ekki langt frá þeim upphæðum sem hér hafa verið nefndar.

Einhugur var í nefndinni með að afgreiða málið og ég á ekki von á öðru en að einhugur verði í þinginu um þetta mikilvæga mál. Ég hef rætt þetta við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og finn ekki annað en velvilja hjá ríkisstjórninni til að taka þátt í þessu í samræmi við þann vilja sem kemur fram í nefndarálitinu.