149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það gleður mig að við erum bæði sammála um sjálfsákvörðunarrétt kvenna og mikilvægi hans. Þá situr spurningin eftir: Hvar skal draga línuna? Línan eins og hún er lögð til af sérfræðingum eins og sakir standa núna er 22. vika vegna þess að þá er fóstur ekki talið lífvænlegt.

Ef við viljum setja undanþágur — gefum okkur móður sem á fjögur börn og það kemur í ljós að hún gengur með alvarlega fatlað barn. Ætlum við að meina þeirri konu um að fara í þungunarrof af því að hún treystir sér ekki til að bæta fimmta barninu við sem er alvarlega fatlað og hún getur ekki séð fyrir því? Þurfum við að segja henni: Nei, þú getur ekki fengið undanþágu vegna þess að við gefum bara undanþágu ef lífi þínu er ógnað?

Það sem er verið að gera með þessari löggjöf er að draga línu í sandinn. Fram að þessu ræður konan hvað kemur fyrir hennar líkama. Það er ekki talið líklegt, miðað við gögn frá öllum löndum sem hafa frjálslegri löggjöf en við, að fjöldi þeirra kvenna sem fara í þungunarrof eftir 12. viku, eftir 16. viku, eigi eftir að aukast. Það sýna okkur gögn frá Kanada, frá Bretlandi, frá öðrum stöðum þar sem löggjöfin er töluvert frjálslegri en hér. Þar er það enn þá yfirgnæfandi meiri hluti allra kvenna sem fer í þungunarrof fyrir 12. viku, enda hefur það minnst inngrip inn í líf kvenna að gera það þá, minnst hætta, minnst vesen, minnstir erfiðleikar. Auðvitað gera þær það þá. Konur eru skynsemisverur rétt eins og menn.

Línan sem er verið að draga í sandinn, 22 vikur, getur vissulega breyst. Þá er fullt tilefni til þess að endurskoða hvar við drögum hana. En ef spurningin er sjálfsákvörðunarréttur konunnar gagnvart rétti (Forseti hringir.) fósturs til lífs þá er þetta lína sem sérfræðingar segja okkur. Og ég spyr: Hver annar ætti (Forseti hringir.) að leggja til þessa línu en einmitt þeir?