149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef fylgst mjög vel með þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í dag, 2. umr. um nýtt frumvarp til laga um þungunarrof og þeim sjónarmiðum sem hafa komið hér fram. Ég hef fylgst vel með þessu máli frá upphafi og raunar vel fyrir þann tíma. Þrátt fyrir það sem sumir hv. þingmenn, og aðrir sem hafa talað um þetta frumvarp, hafa haldið fram þá á þetta mál sér töluverðan aðdraganda og heldur langan.

Það var þannig að þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp til að fara yfir núgildandi lög um fóstureyðingar — lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, eins og þau heita núna — en þau eru komin töluvert til ára sinna, eru alveg frá árinu 1975. Þessi starfshópur var skipaður sérfræðingum og á grundvelli vinnu þeirra var hafist handa við þetta frumvarp. Þetta hefur því alla vega legið frá því ég settist á þing. Skýrslan sem kom frá þessum sérfræðingum var kynnt og ég hef því fylgst með þessu máli í ágætistíma. Mér finnst alls ekki verið að fara bratt í þetta mál heldur finnst mér það einmitt hafa verið skoðað mjög gaumgæfilega. Mér finnst ítarlegt og mjög víðtækt samráðsferli hafa átt sér stað. Mér finnst gríðarlega mikilvægt samráð við sérfræðinga, og þá sérstaklega þá sérfræðinga sem sinna þessum aðgerðum, hafa átt sér stað og mér sýnist þessi vinna að öllu leyti byggjast á því sem talið er vera besta niðurstaðan, byggjast á því hvað þarf að gerast til þess að framkvæmdin verði sem aðgengilegust fyrir þær konur sem á því þurfa að halda. Ég virði að sama skapi þau siðferðislegu mörk sem ýmsum þingmönnum er tamt að tala um í þessari umræðu, um lífvænleika fósturs, um rétt fósturs til lífs gagnvart sjálfsákvörðunarrétti konunnar.

Í inngangi vil ég einfaldlega segja að mér finnst alls ekki verið að fara of bratt í þetta. Ég veit líka til þess að hv. velferðarnefnd hefur fjallað mjög ítarlega um þetta mál í talsvert langan tíma og ég held ekki að verið sé að hlaupa af stað í þetta. Ég hef áður komið hér upp og lýst sjónarmiðum mínum gagnvart þessu frumvarpi. Ég gerði það í 1. umr. og ég lýsti yfir eindregnum stuðningi mínum við frumvarpið. Það gleður mig að geta gert það nú líka og geta lýst yfir stuðningi við meirihlutaálit velferðarnefndar. Ég er mjög ánægð með að þau hafi haldið sig við þann vikufjölda sem sérfræðingar mæla með til viðmiðunar frekar en að fara mögulega að versla með það sem einhvers konar pólitíska skiptimynt til að vinna málinu brautargengi á þingi. Mér finnst ekki hægt að eiga viðskipti með þessar vikur í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum frá sérfræðingum um hvers konar mál þeir eru að meðhöndla og þá sérstaklega þær konur sem falla utan gildandi lagaramma en þurfa þó á þessari heilbrigðisþjónustu að halda — og ég kalla þetta heilbrigðisþjónustu kinnroðalaust, rétt eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir eða heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem sinna heilbrigðisþjónustu. Mér finnst ekkert athugavert við að gera það öfugt við suma hv. þingmenn hér.

Ég ætlaði af þessum sökum ekki að fara neitt sérstaklega djúpt í mínar skoðanir á þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir vegna þess að ég hef nú þegar gert það. Ég hef lýst yfir miklum stuðningi við frumvarpið. Ég vil ítreka hvað mér finnst mikilvægt að endurnýja þessa löggjöf, að koma henni í takt við nútímann, að setja hana þannig fram að sjálfsákvörðunarréttur konunnar sé hafður í fyrirrúmi, að hún þurfi ekki samþykki tveggja embættismanna til þess að fá heilbrigðisþjónustu sem hún telur sig hafa þörf fyrir og að það sé ekki lengur þannig að fötlun eða ætluð fötlun fósturs veiti undanþágu frá almennri reglu, heldur sé það val konunnar, ákvörðun konunnar, hvort hún treysti sér til þess að ganga með alvarlega fatlað barn eða ekki, hvort hún treysti sér til þess að ganga með barn ef hún kemst að því töluvert eftir að núgildandi frestur er liðinn og er kannski í mjög erfiðum félagslegum aðstæðum eins og við höfum heyrt af.

Grundvallarspurningin í þessari umræðu allri finnst mér vera hvort við treystum konum. Punktur. Treystum við konum til að taka ákvarðanir um sitt eigið líf, ákvarðanir um siðferðisleg álitaefni varðandi þungunarrof, ákvarðanir um getu sína til að ganga með barn, eiga það, sinna því, ala það upp, takast á hendur þessa skuldbindingu? Treystum við konum eða ekki? Um það snýst þessi umræða að langmestu leyti. Þetta er vissulega erfið umræða eins og sumir þingmenn hafa komið inn á. Mér finnst hún alveg sérstaklega erfið gagnvart þeim sem tala af mikilli vanþekkingu og á mjög niðrandi hátt, að mér finnst, um konur sem kjósa að fara í þungunarrof. Það er talað um að tala verði fyrir hönd ófæddra barna. Breytingartillaga er sett fram af þriðja minni hluta velferðarnefndar, hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni, um að skilgreiningin á orðinu „þungunarrof“ — sem hann vill reyndar endilega kalla „fóstureyðingu“ — verði, með leyfi forseta:

„Lyfjagjöf eða önnur læknisaðgerð sem framkvæmd er að beiðni konu í því skyni að binda enda á líf fósturs.“

Það sem hv. þingmaður er að gera með þessu tali, með því að bera saman fóstureyðingu eða þungunarrof og dauðarefsingu, er að segja okkur, undir rós, að hann líti á konur sem fari í þungunarrof sem morðingja. Það er hans skoðun, að þær drepi börn. Það er kannski ekki vinsælt að halda því nákvæmlega fram en það er gefið rækilega í skyn vegna þess að orðalagið sem hv. þingmaður leggur til á ekkert skylt við orðalagið í núgildandi löggjöf. Það er ekki eins og hann sé að reyna að halda í horfinu. Hann vill að það komi fram í lögum að með þungunarrofi sé verið að binda endi á líf fósturs. Hann talar mikið um líf og dauða og rétt okkar til að ákvarða um það í málflutningi sínum.

Í núgildandi löggjöf er ekki talað um að binda endi á líf fósturs eins og hv. þingmaður vill gera með breytingartillögu sinni. Bara svo að því sé haldið til haga. Og til að því sé haldið til haga þá vill hv. þingmaður þetta, með þessum málflutningi sínum, með breytingartillögum sínum — án þess að hann átti sig endilega á því sjálfur, ég á mjög erfitt með að átta mig á því, þegar ég ræði við hv. þingmann og sömuleiðis hv. þm. Ingu Sæland, hvort þau skilja almennilega hvað þau eru að leggja til í breytingartillögum sínum og nefndaráliti. Þau eru að tala um að þrengja réttinn frá því sem er nú þegar, þrengja aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu, að þungunarrofi, og það töluvert með því að setja mörkin við 12 vikur en ekki 16, eins og raunin er núna. Það er afleiðingin ef breytingartillaga nefndarmanns velferðarnefndar af hálfu Flokks fólksins verður samþykkt og það er eitthvað sem ég get ekki stutt.

Aðrir hv. þingmenn en Guðmundur Ingi Kristinsson hafa verið að tala um sjálfsákvörðunarrétt konunnar, að þeir virði sjálfsákvörðunarrétt konunnar en að karlmaðurinn eigi að hafa einhvers konar aðkomu að slíkri ákvarðanatöku eða að báðir aðilar eigi að fá að taka þessa ákvörðun. Þegar hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson voru spurðir hvernig þeir sjái fyrir sér að slík sameiginleg ákvarðanataka fari fram varð fátt um svör. Hvernig skal framkvæma vilja þessara tveggja ef konan vill gangast undir þungunarrof en karlinn vill það ekki eða öfugt? Ef vilji þessara tveggja stangast á, hvor skal hafa yfirhöndina? Hvor ræður meiru? Hvernig skal framkvæma vilja karlsins ef hann er andstæður vilja konunnar? Þeir hafa ekki getað gefið skýr svör um hvernig eigi að standa að því enda hafa þeir ekki hugsað þá hugsun til enda. Þeim finnst bara að karlar eigi að hafa eitthvað um það að segja hvort konur fari í þungunarrof eða ekki. Þeir geta ekki útskýrt hvernig þeir sjá það fyrir sér að vilji þessara karla verði framkvæmdur sé hann á skjön við vilja konunnar. Enda er erfitt að sjá fyrir sér að það verði öðruvísi en í einhvers konar hryllingsmynd eða dystópískri framtíðarsýn þar sem konur eru aftur orðnar að húsþrælum karla.

Í núgildandi löggjöf er gert ráð fyrir því að leitað skuli eftir áliti karlsins ef unnt er. Það er kannski einmitt líka barn síns tíma. Ég held að flest venjuleg pör myndu ræða það hvort binda eigi endi á þungun eða ekki. Mér finnst ekki að það sé eitthvað sem löggjöfin eigi að fyrirskipa eða framkvæma, hvernig sem við ætluðum svo að fara að því. Núgildandi lög innihalda líka ákvæði eins og þetta, með leyfi forseta, úr 13. gr.:

„Sé kona vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða af öðrum ástæðum ófær um að gera sér grein fyrir nauðsyn aðgerðarinnar, þá er heimilt að veita leyfi til aðgerðarinnar samkvæmt umsókn lögráðamanns.“

Núgildandi löggjöf gerir sem sagt ráð fyrir því að lögráðamaður geti ákveðið fyrir hönd lögræðissviptrar konu að hún skuli gangast undir þungunarrof. Ég fékk nýverið svar frá hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur um að það tíðkaðist ekki á kvennadeild Landspítalans að beita þvingunum þegar kemur að aðgerðum sem þessum, sem er mikið gleðiefni. Á sama tíma finnst mér varhugavert að hafa það í okkar löggjöf að það sé ásættanlegt, eða tekið fram í löggjöfinni, að einhver annar en konan sjálf geti tekið ákvörðun um að binda endi á þungun og þannig er löggjöfin í dag.

Hv. þingmenn Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson og aðrir hafa ítrekað minnst á að engum konum sé neitað um að fara í þungunarrof eins og sakir standa. Við þessu langar mig að segja tvennt. Í fyrsta lagi eru mjög skýr dæmi til um þær konur sem geta ekki sótt um vegna þess að þær uppfylla ekki undanþáguskilyrðin, þ.e. að fóstrið sem þær bera sé líklegt til að vera alvarlega fatlað eða hafi ekki lífvænleika, nú eða að það stofni lífi þeirra í hættu — og það á líka við um 13 ára börn sem verða þunguð. Ef lífi þeirra er ekki stefnt í hættu með því að ganga með barn þá falla þær ekki undir umrætt undanþáguákvæði og þurfa þar af leiðandi að leita til Bretlands þar sem reglurnar eru rýmri til að börn þurfi ekki að ganga með börn.

Það er tímaskekkja, virðulegi forseti, að lögin okkar geri ekki ráð fyrir því að við getum komið til móts við og veitt börnum heilbrigðisþjónustu sem á því þurfa að halda. Svo er annað sem er undirliggjandi í þessum málflutningi sem veldur mér ákveðnum áhyggjum. Hv. þingmenn vilja ekki breyta núgildandi löggjöf, þau segja það í aðra röndin. Þau segja það í hina röndina að þau séu mótfallin þessum vikufjölda. Þau tala um ófædd börn og rétt þeirra til lífs og þetta eru hv. þingmenn sem sitja á Alþingi Íslendinga og eiga alveg raunhæfa möguleika á að komast í ríkisstjórn. Það vill svo til, hæstv. forseti, að lögin eins og þau eru núna koma ekki í veg fyrir verulega áherslubreytingu, koma ekki í veg fyrir að sífellt fleiri konum verði neitað um þungunarrof komist íhaldssamari öfl til valda. Lögin frá 1975 eru töluvert íhaldssöm og berist boð frá ráðherra viðkomandi málaflokks um að þeim skuli framfylgt töluvert harðar en gert hefur verið fram að þessu gætum við heldur betur farið að sjá fleiri synjanir byggðar á siðferðislegu viðmiði þeirra hv. þingmanna sem hér hafa tekið til máls. Og mér hrýs hugur við því, hæstv. forseti, að komist þessir hv. þingmenn í ríkisstjórn þá fari einmitt leyfum kvenna til þungunarrofs töluvert fækkandi vegna þeirra viðhorfa sem þeir hafa og það mun ekki verða byggt á vísindalegri nálgun heldur siðferðislegri sannfæringu þeirra þingmanna um að konur, eftir 12 vikur, að mér skilst, á þeim flestum, hafi ekki yfirráðarétt yfir eigin líkama. Og eiginlega finnst þeim að konur eigi bara alls ekki að gera þetta og ef þær langi ekki í barnið þá eigi þær bara að gefa það til ættleiðingar frekar en að fara í þungunarrof. Það virðist vera viðtekin skoðun líka.

Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst mjög mikilvægt að endurnýja löggjöfina. Þá er það alla vega ekki bara spurning um sinnaskipti ráðandi afla hvort konur hafa aðgengi að sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu eða ekki, heldur þarf þá að fara fram annað ferli eins og það sem við erum að fara í gegnum núna, ferli sem nota bene hefur verið mjög vandað, mjög ítarlegt og hefur átt sér langan aðdraganda. Þessi lög eru frá 1975 og þau byggjast á vantrausti í garð kvenna. Upphaflega, þegar þau komu fram, var lagt til að konur fengju að ráða því sjálfar fram að 12. viku hvort þær færu í þungunarrof eða ekki. Þau lög þurfti að draga til baka vegna þess að konum væri ekki treystandi til að taka þessa ákvörðun fyrir sjálfar sig á þeim tíma. Þessi sömu viðhorf eru viðhorfin sem við erum að upplifa núna í umræðunni í þessum sal. Konum er ekki treystandi til að taka siðferðislega og sanna ákvörðun fyrir sjálfar sig um hvað sé þeim og þeirra lífi fyrir bestu. Það er grundvöllurinn, um það snýst þetta allt saman. Vikufjöldinn kemur frá helstu sérfræðingum okkar, öllum þeim sem sinna þessari þjónustu, öllum þeim læknum og öllu því heilbrigðisstarfsfólki sem sinnir þessari þjónustu ber saman um að þetta sé góður viðmiðunartími fyrir allar aðgerðir sem ekki eru beinlínis framkvæmdar til að bjarga lífi móður.

Þetta segja okkar færustu sérfræðingar og þeir sem tala um að það eigi að minnka þetta, að þetta eigi að vera minna, vita held ég ekki að nú þegar eru þungunarrof framkvæmd fram á 22. viku en einungis með undanþágum byggðum á alvarlegri fötlun fósturs eða ógn við líf og heilsu móður. Þannig er ástandið í dag. Við ætlum að fjarlægja þessa fötlunarmismunun úr lögunum og leyfa konunum að ráða því sjálfar hvort þær fari í þungunarrof eða ekki fram á 22. viku sem er vikufjöldinn sem er ástundaður núna. Engar tölur, engin gögn sýna fram á það, í þeim löndum þar sem réttur til þungunarrofs hefur verið víkkaður, þar sem réttur til þungunarrofs hefur verið lengdur, að fleiri konur fari í þungunarrof síðar á meðgöngunni. Það er ekki svoleiðis. Konur eru skynsemisgæddar verur, rétt eins og menn. Þeim er treystandi til að taka skynsamlegar ákvarðanir um líf sitt og það er skynsamlegra að fara í þungunarrof fyrir 12. viku, það er miklu minna inngrip inn í líf þegar konu en ef ákveðið er að gera það síðar. Þetta vita konur alveg. Þær þurfa að hafa sínar ástæður fyrir því að fara síðar og þær gera það ekki út af því að þær nenni ekki að fara fyrr. Og þó það væri svoleiðis, hæstv. forseti. Hver erum við að ákveða fyrir konur hvað þær eigi að gera við líkama sinn? Mér finnst mjög sorglegt að heyra þau viðhorf til kvenna sem ég hef heyrt frá nokkrum hv. þingmönnum í þessari umræðu. Þau lýsa vantrausti í okkar garð og ákveðinni fyrirlitningu. Sem betur fer held ég að þessi viðhorf séu í minni hluta.