149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða umræðuna um þriðja orkupakkann sem er sennilega það málefni sem veldur hvað mestri úlfúð meðal Íslendinga þessa dagana. Mig langar að minna fólk á að þriðji orkupakkinn er samansafn af rituðum skjölum. Það er ekkert samþykkt með honum sem ekki er skrifað niður einhvers staðar og mögulegt er að lesa, greina og rökræða. Það getur verið erfitt að finna út úr því nákvæmlega hvar réttu upplýsingarnar er að finna en punkturinn er sá að eðli og áhrif þriðja orkupakkans eru rannsakanleg hverjum sem hefur til þess tíma og þolinmæði.

Því miður fer umræðan fram í miklum tilfinningahita þar sem meiri metnaður er lagður í að greina hver skuli kallast landráðamaður og hver einangrunarsinni. Hvor hliðin sakar hina um að hafa ekki kynnt sér efnið nógu vel. Karp um hver sé klárastur er í eðli sínu óáhugaverð umræða en samt má hafa í huga að það er alveg jafn auðvelt að hafa kolrangt fyrir sér um efni sem þetta eftir mikla yfirlegu hafi maður fyrst og fremst kynnt sér kolrangar upplýsingar. Ég vil benda öllum í umræðunni, hvar sem þeir standa, á að í umferð er mjög mikið af kolröngum upplýsingum. Það ætti að vera óumdeilt. Oft er sagt að þriðji orkupakkinn sé flókinn en eftir að hafa kannað það myndi ég lýsa því öðruvísi. Réttara væri að segja að angar hans séu margir, ekki endilega flóknir en margir.

Eftir hrun hafa blóðhiti og stjórnlaus reiði notið óverðskuldaðrar virðingar sem sannfæringartæki en hversu réttmætar og skiljanlegar sem slíkar tilfinningar geta verið draga þær líka úr getu fólks til að ræða hlutina yfirvegað og út frá sameiginlegum staðreyndum, jafnvel þeim sem allir eru sammála um. Það er nefnilega enginn ágreiningur um að orkuauðlindir á Íslandi séu orkan okkar. Enginn þingmaður hefur gleymt heiti sínu við stjórnarskrána. Það er ágreiningur um ýmsa hluti sem varða málið en ekki þessa hluti.

Ígrundun, yfirvegun, opinn hugur og virk hlustun eru ekki bara dyggðir þegar allt leikur í lyndi og lítið er í húfi heldur þvert á móti þegar tilfinningarnar eru hvað heitastar og þegar hvað mest er í húfi. Við getum alveg verið (Forseti hringir.) málefnaleg, yfirveguð, kurteis og skilningsrík. Sýnum það núna í verki.