149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nýjustu fréttir af hinu fallna flugfélagi WOW sýna okkur svo um munar hversu illa stjórnvöld stóðu sig og stofnanir ríkisins í því að fylgjast með félaginu síðustu misserin sem það starfaði. Sú nýjasta vending sem varð í héraðsdómi í gær, og getur náttúrlega farið lengra, hlýtur að kalla á sérstaka rannsókn á því hvernig samskiptum Isavia ohf. og WOW var hagað svo og samskiptum Isavia og Samgöngustofu.

Í nóvember í fyrra efndi Miðflokkurinn til sérstakrar umræðu í þinginu um málefni WOW. Í sjálfu sér, þegar maður rifjar upp þá umræðu, kom ekkert fram í máli samgönguráðherra um að sérstakar ástæður væru til að gjalda varhuga við því hvert stefndi. Það kemur líka fram og kom fram í fréttum um daginn að ráðherranefnd nokkur hefði haldið 15 fundi um mögulegt fall WOW air frá því í ágúst í fyrra fram til 28. mars.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað hefur farið fram á þeim fundum, um hvað hefur verið rætt, nema menn hafi rætt veðrið. Um mitt ár í fyrra var skuld WOW, væntanlega við Isavia, u.þ.b. 1 milljarður kr. Þegar leið nær áramótum hætti flugfélagið að borga lögbundin gjöld, eins og lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna sinna. Það blasti við mjög lengi í fyrra að fyrirtækið var í raun ógjaldfært. Samt sátu menn hjá og gerðu ekkert nema undirbúa flutning farþega, sem er ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Það er sérstök stofnun úti í bæ sem á að gera það.

Ég spyr aftur: Hvað voru menn að gera á 15 fundum um starfsemi WOW þessa mánuði? Ekkert af viti alla vega.