149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur.

636. mál
[13:13]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, frá efnahags- og viðskiptanefnd, á þskj. 1385.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Fjármálaeftirlitinu. Nefndinni bárust umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu og Neytendasamtökunum auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum verslunar og þjónustu.

Í frumvarpinu er lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/751 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, með viðeigandi aðlögunum, hljóti lagagildi hér á landi. Í reglugerðinni er m.a. mælt fyrir um að milligjöld vegna debetkorta megi í hæsta lagi nema 0,2% af fjárhæð greiðslu en 0,3% af fjárhæð kreditkortagreiðslna. Áhrif þessa verða þau að hámarksmilligjöld vegna kreditkortagreiðslna lækka um helming frá því sem nú gildir hér á landi í samræmi við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015. Hámarksmilligjöld vegna debetkortagreiðslna eru þau sömu samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og samkvæmt milligjaldareglugerðinni. Efni frumvarpsins er nánar lýst í greinargerð með því.

Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust er lýst stuðningi við framgang frumvarpsins. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er m.a. lagt til að tekið verði fram í frumvarpinu að um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fari samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Nefndin telur þegar leiða af viðkomandi lögum að þau gildi um eftirlit Fjármálaeftirlitsins samkvæmt frumvarpinu og telur viðbótina því óþarfa.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á 3. gr. frumvarpsins um stjórnvaldssektir. Nefndin tekur ábendingarnar til greina og leggur í fyrsta lagi til orðalagsbreytingu á 2. málslið 2. mgr. ákvæðisins svo að skýrt verði að hámarksfjárhæð stjórnvaldssektar sem Fjármálaeftirlitið leggur á lögaðila geti numið 800 millj. kr., tvöföldum ávinningi af broti eða 10% af heildarveltu eftir því hver þessara fjárhæða er hæst.

Í öðru lagi leggur nefndin til að í greininni verði kveðið á um þau sjónarmið sem tekið skal tillit til við ákvörðun sekta. Við sektarákvörðun verði þannig horft til alvarleika brots, hve lengi brot hefur staðið yfir og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Jafnframt verði horft til samstarfsfýsi hins brotlega við rannsókn máls. Ekki er um tæmandi talningu atvika að ræða heldur skal horft til allra atvika sem máli geta skipt þegar fjárhæð sektar er ákvörðuð.

Í þriðja lagi leggur nefndin til að kveðið verði á um að greiða skuli dráttarvexti af sektarfjárhæð sé hún ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun álagningar. Fellst nefndin á þá ábendingu Fjármálaeftirlitsins að sú viðbót sé til þess fallin að auka samræmi milli ákvæða sem heimila stjórnvaldssektir vegna efnahagsbrota.

Með nefndarálitinu fylgja breytingartillögur sem ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir.

Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Einar Kárason, Ólafur Þór Gunnarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Smári McCarthy og Þorgrímur Sigmundsson.