149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

biðlistar eftir bæklunaraðgerðum.

[15:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það eru auðvitað notaðar tilteknar aðferðir til að greina hverjir eru í mestri þörf og hverjir geta frekar beðið. Eitt af því sem horft er til er vinnufærni, að fólk geti sinnt sínu daglega lífi. Verkir skipta einnig mjög miklu máli. Af því að hv. þingmaður spyr hvort það sé virkilega ekkert verið að fylgjast með því þá er sannarlega verið að því. Það er m.a. það sem ég óskaði eftir að embætti landlæknis greindi í úttekt sinni á því hvaða árangri við höfum náð.

Þegar ég fer yfir árangurinn er ég fyrst og fremst að tala um mælanlega hluti, sem eru tíminn sem beðið er, hversu margir eru að bíða o.s.frv. Þeir þættir sem hv. þingmaður talar um, sem er óásættanlegt ástand, að þurfa að vera með mjög alvarlega og mikla verki og á sterkum verkjalyfjum um margra mánaða skeið, eru meðal þess sem er skoðað. Ég vænti þess að fá úttekt frá embætti landlæknis um miðjan mánuðinn.