149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

einkaframkvæmdir í heilbrigðiskerfinu.

[15:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki farið leynt með pólitíska stefnu sína þegar kemur að einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu. Það verður ekki túlkað á annan hátt en svo að beinlínis hafi verið skorin upp herör gegn hvers kyns einkaframkvæmd innan heilbrigðisgeirans á undanförnum mánuðum, og að því er virðist fyrst og fremst af einhverjum pólitískum kreddum.

Heilbrigðiskerfið er okkar mikilvægasta kerfi, okkar kostnaðarsamasta kerfi og skiptir gríðarlega miklu máli að þar ráði skynsamleg nýting fjármuna og skilvirkni för öllum stundum. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar beinlínis leitt til þess að aðgerðum á þeim sviðum sem helst er talað um hér, eins og liðskiptaaðgerðum og augnsteinaaðgerðum, hefur beinlínis fækkað (Gripið fram í.) á 12 mánaða tímabili. Samkvæmt gögnum landlæknis, þeim nýjustu sem hægt er að finna, hefur þeim fækkað um 20%. Þá hvet ég hæstv. heilbrigðisráðherra til að kynna sér þau gögn betur. Á sama tíma hafa biðlistar lengst um á annan tug prósenta í þessum sömu aðgerðum og á sama tíma horfum við upp á að við erum að verja stórauknu fjármagni til heilbrigðiskerfisins.

Það hlýtur að vera svo að það sé þjónusta við sjúklinga sem skipti öllu þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, ekki hver veitir þá þjónustu, að sjúklingar geti treyst því að þeir geti fengið góða og tímanlega þjónustu í heilbrigðiskerfinu þegar þörf er á. Ég spyr hæstv. ráðherra, í ljósi þessara talna sem ráðherrann segist ekki kannast við en eru á heimasíðu landlæknis: Hvað hyggst hún gera?