149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

einkaframkvæmdir í heilbrigðiskerfinu.

[15:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Samkvæmt gögnum landlæknis, ef tekinn er saman heildarfjöldi augasteinaskipta og liðskiptaaðgerða á árinu 2017 og síðan því nýjasta 12 mánaða tímabili sem til samanburðar er, sem telur frá 1. október 2017 til 30. september 2018, fækkaði slíkum aðgerðum samanlagt um 1.200, úr 6.200 í 5.000 á þeim tveimur tímabilum, svo að því sé til haga haldið.

Það ber ekki vott um árangur í baráttunni við styttingu biðtíma eftir liðskiptaaðgerðum. Þvert á móti eru biðlistarnir á því tímabili að lengjast. Það þýðir ekkert að skýla sér á bak við það að við séum betri en við vorum 2015. Þörfin er líka miklu meiri. Hér verður eitthvað að gera, hæstv. ráðherra. Hér er ekki verið að tala um að vega að opinbera heilbrigðiskerfinu. Það er beinlínis stefna ríkisstjórnarinnar að færa þau sömu verkefni frá einkaaðilum til opinbera kerfisins sem virðist hins vegar ekki í stakk búið til að taka við þeim. Það verður að setja sjúklinga í forgrunn, hæstv. ráðherra.