149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

bindandi álit í skattamálum.

638. mál
[15:53]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Almenna reglan er að menn greiði fyrir þá þjónustu sem óskað er eftir. Hér er vissulega verið að hækka gjald í samræmi við launavísitölu enda er kostnaður ríkisskattstjóra fyrst og fremst launakostnaður. Um 60% af þeim beiðnum, því sem óskað hefur verið eftir, á undanförnum árum hafa ekki leitt til þess að menn hafi greitt meira. Í um 40% tilvika, ef ég man rétt, hafa menn þurft að greiða tímagjald, sem er u.þ.b. 7.500 kr., vegna þess að vinnan á bak við álitsgerðina er meiri. Það er skynsamlegt og sanngjarnt að við tryggjum að þeir sem biðja um bindandi álit standi undir þeim kostnaði sem fellur til hjá ríkisskattstjóra, annars þarf ríkisskattstjóri að greiða með og standa undir þeim kostnaði af því fé sem honum er ætlað til annarra (Forseti hringir.) verkefna. Þess vegna er rétt og skynsamlegt að menn taki ákvörðun um að hækka gjaldið með þeim hætti sem hér er lagt til.