149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Við sjáum bara í kringum okkur og við vitum það sem rannsóknir segja okkur, bæði íslenskar og erlendar, að aukið aðgengi eykur neyslu. Þannig er það. Og með því frumvarpi sem við ræðum hér er lagt til aðgengi sé aukið. Ef Alþingi ætlar að samþykkja slíkt frumvarp fylgir ansi margt með í þeim pakka. Það eru slæmar aukaverkanir sem myndu fylgja frumvarpinu.

Aðgengi að áfengi er mjög gott á Íslandi. Enginn kvartar undan því að erfitt sé að komast yfir áfengi á Íslandi. Og áfengisvandinn er stór sem við þurfum að glíma við. Það er engin ástæða til að bæta við hann.

En mér finnst ágætt að vitna í síðu landlæknis sem dregur vel fram einstakar rannsóknir og margar rannsóknir af svipuðum toga sem dregnar hafa verið saman og draga það fram hér í þessari umræðu að hver einasta þeirra, hver ein og einasta niðurstaða, er á þann veg að aukið aðgengi eykur neyslu. Helsta forvörnin er takmarkað aðgengi, háir skattar og hátt verð á áfengi.