149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að segja að allir þingmenn vinni að því sem þeir telja vera hag þjóðarinnar hverju sinni og standi með þjóðinni. Það er þannig. Þegar afnám áfengisbannsins var sett í þjóðaratkvæðagreiðslu 1933 voru 57,7% samþykk og 42,3% andvíg. Það munaði kannski ekki miklu þá. En í það skipti komst á sá skilningur hjá ráðamönnum þjóðarinnar á þeim tíma að kannski væri allt í lagi að treysta almenningi. Mér finnst afskaplega fín hugmynd að treysta almenningi.

Við höfum ekki talað mikið um bann á súkkulaði, en þó vita allir að óhófleg neysla á súkkulaði er ekki endilega góð. Í þessu eins og öðru hallast ég svolítið í frjálslyndu áttina … (HBH: Súkkulaði er ekki vímugjafi.) ja, það er hægt að prófa að borða of mikið af súkkulaði og sjá til.

En það er ástæða til að treysta almenningi. Í öllu falli held ég að (Forseti hringir.) við ættum að prófa að treysta sjálfum okkur fyrir því að hleypa málinu í atkvæðagreiðslu.