149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu, af hálfu þeirra fáu meðmælenda sem hafa komið í umræðuna, að við sem erum á móti þessu séum þetta fólk sem vill ekki leyfa öðru fólki að gera neitt. Ég vil hins vegar segja að ég hef fyrir því orð góðra manna sem hafa gengið þann veg að misnota áfengi verulega illa að menn sem þannig eru staddir nái sér alltaf í áfengi, alveg sama hvað.

Ég kann alls ekki neitt að fara með áfengi en við erum með opnar verslanir í nánast öllum þéttbýliskjörnum á Íslandi, í mislangan tíma. Mestur er tíminn líklega tíu tímar á dag, ef ég man rétt, nema á laugardögum, þá eru þeir kannski átta, ekki á sunnudögum. Það eru þúsundir veitingastaða þar sem við getum gengið að áfengi frá líklega kl. 11 á morgnana og fram til kl. 3 á nóttunni ef við viljum, allan ársins hring, nota bene, alla daga vikunnar og jafnvel á jólunum. Það er kannski rétt yfir jólanóttina sem er ekki aðgengi að áfengi.

Ef það dugar ekki veit ég ekki hvað menn vilja gera. Er það kannski bara 24/7? Vilja menn selja áfengi í þeim búðum sem þegar eru opnar hér, með tilheyrandi kostnaði, 24 tíma á dag allan ársins hring? Er það nægilegt framboð?

Ég vil ekki tala illa um Morfís-keppnina en mér finnst þetta einhvern veginn svoleiðis rök. Það eru ekki haldbær rök að halda þessu fram. Ef þetta er forræðishyggja skal ég bara gangast við því, glaður og stoltur.