149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þessa umræðu með okkur í dag. Í lok janúar sl. kom út sérhefti Hagstofunnar um innflytjendur. Það er í fyrsta skipti sem Hagstofan safnar saman yfirgripsmiklu efni um félagslega stöðu innflytjenda. Heftið lýsir vel þeirri gjörbreytingu sem orðið hefur á íslensku samfélagi síðustu áratugi.

Fyrir 25 árum voru tveir af hverjum 100 Íslendingum erlendir ríkisborgarar. Í ár er þetta hlutfall tæplega 13 af hundraði. Hlutfallið hefur sjöfaldast á innan við einni kynslóð. Þessar breytingar hljóta að kalla á það að við veltum fyrir okkur skólastarfinu sem hefur frá upphafi byggst á því að þjóna einsleitum nemendahópi.

Það eru nokkrar vísbendingar um að við sinnum ekki þessum Íslendingum nægilega vel. Sérstaklega er eftirtektarverður sá mikli munur á skólasókn í framhaldsskóla sem birtist hjá innflytjendum og innlendum nemendum. Sjö af hverjum tíu innlendra á 19. aldursári eru skráðir í framhaldsskóla meðan einungis tveir af hverjum tíu innflytjenda erU í framhaldsskóla. Þessar niðurstöður bætast svo ofan á niðurstöður PISA-könnun árið 2015, en könnunin sýndi fram á að lesskilningur 15 ára innflytjenda er talsvert verri en innlendra og fer versnandi milli kannana. Í skýrslu Menntamálastofnunar frá árinu 2017 kemur fram að munurinn í lesskilningi sé u.þ.b. 2,5 skólaár. En svo maður bendi einnig á hið jákvæða benda niðurstöðurnar einnig til þess að nemendum líði að jafnaði vel í skólanum og er sú mæling á uppleið miðað við fyrri kannanir.

Nú styttist vonandi í að greiningu gagnanna frá PISA-könnuninni frá því í fyrra ljúki og við sjáum punktstöðuna eins og hún er í dag. En því miður, Ísland stendur sig verst á Norðurlöndunum miðað við skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar frá því í fyrra. Það er alvarlegt að sjá þessa þróun og við hljótum að spyrja okkur hvað það er sem veldur og hvað við getum gert til að bæta úr.

Í rannsókn sem birt var í Tímariti um uppeldi og menntun á Íslandi árið 2017 kemur fram að kennarar telja sig ekki nægilega vel studda til að skilja og takast á við námsþarfir nemenda. Ég velti því fyrir mér hvort það kynni að vera til bóta að kennsla í íslensku sem öðru tungumáli væri skylda í kennaranámi. Það er annað að kenna íslensku sem annað tungumál en að þjálfa börn í móðurmáli sínu og líklega til þess fallið að efla hinn almenna kennara í starfi. Það er einfaldlega þörf á því að skólakerfið ráði við fjölbreytileikann sem íslenskt samfélag býður upp á í dag.

Munur er á öllum skólastigum milli innflytjenda og innlendra. Skólasókn er notuð sem mælikvarði á menntun innflytjenda af Hagstofunni og við könnun á þeim gögnum kemur margt fróðlegt í ljós. Skólasókn innflytjenda í leikskóla er minni en skólasókn innlendra. Það munar um fimmtung á öðru aldursári og nálega öll börn innlendra eru skráð á leikskóla við tveggja ára aldur. Börn innflytjenda eða annarrar kynslóðar innflytjenda eru nær innlendu börnunum og á fjórða aldursári er lítill munur á þessum hópum. Hér þarf að greina hverjar orsakirnar eru því í leikskólanum eru börnin í íslensku málumhverfi og þjálfast því betur í íslensku en þau gera ef þau eru einungis heima við. Þá er skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla lakari en annarra og vísbendingar um að brottfall þeirra sé mun algengara. Til dæmis sótti fjórðungur 19 ára innflytjenda framhaldsskóla árið 2017 samanborið við tvo þriðju hluta barna sem fæddust hérlendis.

Þá er áhyggjuefni hversu fáir innflytjendur sækja nám í háskóla, en um þriðjungur innlendra er skráður í háskóla á 21. aldursári á móti einum sjötta innflytjenda. Þessi munur á skólasókn í framhalds- og háskóla hlýtur að benda til þess að tækifæri innflytjenda til að uppfylla drauma sína hér á landi séu ekki þau sömu og innlendra.

Til hvaða ráða er hægt að grípa til að þjónusta þessa hópa betur, bæta námsárangur og minnka brottfalls ungs fólks af erlendum uppruna úr framhaldsskólum? spyr ég hæstv. ráðherra.

Samkvæmt greiningum Hagstofu Íslands er launamunur milli innflytjenda og innlendra meiri eftir því sem menntun þeirra eykst. Þá eru einnig meiri líkur á því að innflytjendur teljist of menntaðir fyrir þau störf sem þeir sinna.

Frá því á tíunda áratugnum hafa Svíar boðið upp á viðbótarnám fyrir innflytjendur sem hafa lokið námskrá í öðru landi til að auðvelda þeim að fá starf sem hæfir þeirra menntun. Nýlega hófu svo sænsk yfirvöld að bjóða upp á úrræði fyrir innflytjendur sem hafa menntun og reynslu í greinum þar sem skortur er á starfsfólki í Svíþjóð. Markmiðið er að menntun og færni sé metin hraðar og markvissar og að á innan við tveimur árum frá komu til landsins hafi einstaklingarnir náð fótfestu á vinnumarkaði í störfum sem henta þeim og þeirra færni. Þessi leið sem kölluð er, með leyfi forseta, „fast track“, samanstendur af starfsþjálfun, sænskukennslu og námskeiðum um vinnuumhverfi þessara greina og einnig hvaða viðbótarþekkingar er krafist í störfunum. Þessar leiðir eru samtals 14 og fleiri á leiðinni í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Að lokum spyr ég ráðherra: Er ástæða til þess að skoða það að bjóða upp á stutt nám fyrir háskólasérfræðimenntað fólk með menntun í greinum þar sem vantar starfsfólk á Íslandi til að aðstoða þessa innflytjendur að fóta sig á vinnumarkaði með sambærilegum hætti og í Svíþjóð?