149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að koma með þessa þörfu umræðu inn í þingið og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag.

Eitt er alveg víst að okkur hér á Íslandi ber skylda til að taka utan um börn á öllum stigum sem við bjóðum upp á menntun. Við eigum að mæta þeim nákvæmlega á þeim stað sem þau eru stödd. Ég tek undir það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson benti á áðan, að það er ekki bara að við séum að vanmeta menntun þeirra sem koma til landsins og vilja fá að búa hér sem Íslendingar, heldur lítilsvirðum við það gjörsamlega sem þau hafa lagt á sig í heimalandi sínu og sem hafa hlotið ótrúlega góða menntun. Það á við um lækna, lögfræðinga og smiðinn sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson benti á. Ég er búin að lesa margar sögur frá fólki sem hefur varla þorað að tjá sig þar sem það er svo hrætt við að missa þá láglaunavinnu sem það þarf þó að þiggja vegna þess að það mætir hér fordómum.

Við flytjum til annarra landa. Okkur þykir sjálfsagt að sækja önnur lönd heim og fara með börnin okkar þangað. Við sækjum okkur aukna menntun til annarra landa og við ætlumst til þess að börnunum okkar sé sinnt þar og þau fái menntun við hæfi.

Virðulegi forseti. Það er í okkar valdi að láta þessum börnum líða vel, vegna þess að strax og þau eru komin — hugsið ykkur álagið — til annars lands í skóla innan um fullt af ókunnugu fólki, það er álag fyrir fullorðinn, hvað þá barn.

Ég segi: Við getum gert miklu betur og ég hef fulla trú á að hæstv. menntamálaráðherra hafi hugsjón fyrir því að berjast fyrir réttindum þessara litlu barna. Og við getum verið stolt af því að hér eru tugir þúsunda innflytjenda sem hafa haldið okkar hagkerfi gangandi. Án þeirra værum við ekki þar sem við erum stödd í dag. Betur má ef duga skal. Við skulum halda áfram, (Forseti hringir.) að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna hvað í okkur býr.