149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki nýtt vandamál, ekki bundið við Ísland, að það sjáist munur á tölfræði milli útlendinga og innfæddra. Það er þvert á móti frekar dæmigert. Þegar nánar er að gáð kemur mjög fljótlega í ljós að jafnvel það sem virðist vera smávægilegur munur á aðgengi, segjum t.d. að réttarfari eða menntun eða löggæslu eða hverju sem er, getur það leitt af sér að hinn tölfræðilegri munur getur orðið frekar áberandi. Það er ekki eitthvert eitt vandamál sem hægt er að leysa. Það er ekki einfaldlega hægt að bæta menntunina, ekki einfaldlega hægt að bæta íslenskukennsluna, eitthvað því um líkt.

Þegar á hólminn er komið er það alltaf spurning um viðhorf til fólks og hvort fólk, óháð stöðu og óháð lögum og óháð fjármagni, sé reiðubúið til að hleypa öðrum að sem eru frábrugðnir þeim sjálfum, tala annað tungumál, líta öðruvísi út, trúa öðrum hlutum o.s.frv. Við getum ekki vanmetið þann þátt í þessu. Ég veit svo sem ekki í fljótu bragði hvað hæstv. ráðherra getur gert í því, en það er þess heldur mikilvægara að við ræðum það líka bara út frá því hvernig við komum fram hvert við annað, að við þurfum að geta umborið að fólk sé mismunandi, trúi því sem við teljum vera bölvaða vitleysu, tali eitthvert mál sem við skiljum ekkert í, líti öðruvísi út en við sjálf og fólk sem við þekkjum best.

Ef slíkt viðhorf, sem í daglegu máli er kallað umburðarlyndi, er ekki til staðar þá er ekki hægt að leysa vandann. Það er grunnforsenda þess að það gangi eitthvað yfir höfuð að bæta menntun eða íslenskukunnáttu eða hvað annað. Þetta snýst ekki bara um kerfislægan aðgang. Þetta snýst líka um viðhorf fólksins á gólfinu, eins og er sagt, viðhorf okkar allra. Það þarf í raun og veru að koma fyrst. Það þarf að vera á hreinu að það sé til staðar og það sé stefnan, hin svokallaða almenna skynsemi. Þá geta allar hinar lausnirnar, kerfislægar, sem við gætum staðið að á Alþingi, (Forseti hringir.) virkilega gert mikið gagn, sem ég vona reyndar og tel að við munum gera.