149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég get ekki tekið undir það þegar hér er sagt að verið sé að keyra þetta mál í gegn á einhvern hátt. Við skulum ekki gleyma því, eins og hér hefur komið fram, að breytingar urðu síðast 1975 þannig að margir eru orðnir langeygir eftir frekari breytingum. Þetta mál er búið að eiga sér ansi langan aðdraganda. Málið fór í gegnum ríkisstjórn, í gegnum stjórnarflokka, mælt var fyrir því í nóvember, það er búið að fá sína umfjöllun í nefnd og var tekið inn á milli umræðna í nefnd eins og óskað hefur verið eftir.

Stundum er það þannig að maður er ekki endilega sáttur við niðurstöðu meiri hlutans, þá verður maður bara að greiða atkvæði um það öðruvísi en aðrir í meiri hlutanum munu gera í þingsal, þ.e. meiri hluti þingmanna. Við verðum bara að horfast í augu við það að þó að okkur finnist eitthvað erfitt þá er komið að þeim punkti að þingmenn tjái afstöðu sína við atkvæðagreiðslu. Ég mun styðja hæstv. heilbrigðisráðherra í þessu góða og þarfa máli.