149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:23]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég tel að málið hafi verið afar vel rætt í hv. velferðarnefnd og að haldið hafi verið á málinu af stakri prýði af framsögumanni þess, hv. formanni nefndarinnar. Við erum í þessu máli að ræða um grundvallarréttindi íslenskra kvenna og að halda því fram að draga megi þá umræðu bara eins og mann langar til, af því að menn eru með, ja, við skulum segja aðrar tilfinningar til málsins en aðrir, finnast mér ekki vera nein rök í málinu.

Nefndin ræddi ítarlega hvort við ættum að fara í 18 vikur eða 22 með undanþágu. Það var hins vegar algjörlega ljóst eftir því sem lengra leið á umræðu nefndarinnar að enginn flötur væri á annarri tímasetningu en 22 vikum öðruvísi en að skerða verulega sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Skerða hann verulega. Það var ekki grundvöllur fyrir því að taka málið út á þeim forsendum úr nefndinni. (Forseti hringir.) Þetta breyttist ekkert við þann fund sem við héldum eftir 2. umr. Þá voru ekki teknir inn gestir til frekari umræðu vegna þess að ekki var stuðningur við það í nefndinni.