149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi síðustu orð, það er hvorki þjóðinni né okkur sem hér sitjum bjóðandi að þurfa að sitja undir þessu. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að þeir þingmenn sem leggja nú til breytingar á vikufjölda segja: Við styðjum konur en við ætlum samt að þrengja núverandi réttindi þeirra. Við ætlum að þrengja núverandi réttindi þeirra.

Ef þingmennirnir og jafnvel þeir sem sitja í velferðarnefnd eru ekki meðvitaðir um það þá er eitthvað ekki alveg í lagi, verð ég að segja. Það getur ekki verið markmiðið þegar við tölum um sjálfsákvörðunarrétt kvenna og meinum eitthvað með því, að við ætlum að þrengja núverandi réttindi. Það bara getur ekki verið þannig. Og enn og aftur: 40 ár eru nægjanlega langur biðtími fyrir konur eftir því að geta tekið sjálfstæða ákvörðun um að binda enda á þungun, eins erfið og sú ákvörðun er. Það gerir engin kona af neinni léttúð. Konur eru líka fullfærar um að sækja sér þá aðstoð sem þær telja sig þurfa á að halda þegar svona stendur á. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)