149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:04]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

(Forseti (BN): Hv. þingmaður. Hv. þingmaður. Forseti vill biðja hv. þingmann að bíða þar til hann hefur verið kynntur í ræðustól.)

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á þessu spretthlaupi hér upp í ræðustól.

Nei, hv. þingmaður, þetta snýst ekkert um það hvort ég sé persónulega sáttur við þetta. Þetta snýst miklu fremur um að það er fullt af fólki, m.a. þingmönnum, sem finnst af gildum ástæðum of langt gengið. Þær ástæður þurfa ekki endilega að vera læknisfræðilegar. Þær geta verið tilfinningalegar, siðferðislegar og af ýmsum toga.

Í ræðu hv. þingmanns er alltaf siglt fram hjá þessu vel rökstudda áliti Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Það er eins og margir nefndarmenn í velferðarnefnd sem og aðrir þingmenn sem hér taka til máls til varnar 22 vikum, sem verið er að tala um hérna, skáki í því skjólinu og segi ítrekað að allt sé þetta mál byggt á faglegum forsendum, að það sé allt byggt á vísindalegum niðurstöðum innan úr heilbrigðiskerfinu um það hvernig hlutirnir eigi að vera. Ég er að reyna að halda fram því sjónarmiði að þetta sé ekki læknisfræðilegt úrlausnarefni eingöngu, þetta sé siðfræðilegt úrlausnarefni og ég kalla til vitnis Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún telur að mjög varasamt sé að heimila þungunarrof allt til 22. viku meðgöngu. Og mér finnst (Forseti hringir.) ekki hægt að gera hér slag í slag lítið úr því vel rökstudda áliti Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.