149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið. Mig langaði rétt að spyrja þingmanninn um fundinn milli 2. og 3. umr. í velferðarnefnd þar sem þingmaðurinn, sem þar á sæti ásamt mér, forfallaðist og sendi í sinn stað hv. þm. Sigurð Pál Jónsson. Fyrst varamaður þingmannsins, hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, fulltrúi Miðflokksins á þessum fundi, gat ekki svarað því þegar á hann var gengið með hvað það væri í þessum 16 spurningum sem bárust frá þingmanninum, sem væri nýtt frá því að við samþykktum öll að afgreiða málið út til 2. umr., fyrst hann gat ekki sagt okkur með rökum hvers vegna kalla ætti til nýja gesti, hann gat ekki fært fyrir því rök hvers vegna ættum að taka fleiri fundi í þetta mál, var engin ástæða til að halda málinu lengur í nefndinni.

Ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé spurning. Ég er rétt að upplýsa þingmanninn um þetta vegna þess að það er augljóst á samskiptum hérna í dag að það er ekki nógu mikið um upplýsingagjöf á milli fólks í sumum flokkum þegar kemur að þessu máli. Það hefur greinilega ekki borist nógu vel til til hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur að það var ekkert sem vakti fyrir velferðarnefnd við að afgreiða málið áfram til 3. umr. — það var ekkert sem stóð í vegi fyrir því að kalla til gesti annað en að heimsóknabeiðandinn sjálfur, hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, kom ekki með rök fyrir því að kalla til þessa gesti.